Bandaríska leikkonan Jennifer Lawrence var gestur í hinum eldheita og vel kryddaða spjallþætti, Hot Ones, en í honum svara Hollywood-stjörnurnar spurningum á meðan þær borða gómsæta kjúklingavængi með sósum sem verða sterkari með hverjum vængnum.
Hin 32 ára gamla leikkona var mætt til þess að kynna nýjustu mynd sína, No Hard Feelings, en kom vart upp orði eftir að hafa tekið bita af áttunda kjúklingavængnum sem var makaður í einni af sterkustu sósum sem til eru, Da Bomb Beyond Insanity Hot Sauce.
„Ó, guð minn góður! Guð minn góður!“ heyrðist í leikkonunni á meðan tárin streymdu niður vanga hennar og horið rann úr nösunum.
„Ég er að panikera! Ég er í alvöru að panikera,“ sagði leikkonan rétt áður en hún greip könnu af ísköldu vatni og byrjaði að drekka úr henni. Lawrence áttaði sig fljótlega á því að það væru tveir kjúklingavængir eftir og spurði þáttastjórnandann, Sean Evans, sem borðar kjúklingavængina nánast daglega, “bíddu, eru þessir sterkari?”
Evans fullvissaði leikkonuna um það að Da Bomb væri versta sósan en leikkonan sagði að sér liði eins og hún væri að fara að deyja.
Sjónvarpsþáttaröðin hóf göngu sína árið 2015 og er sýnd á Youtube við miklar vinsældir. Margar af frægustu stjörnum heims hafa sest á móti Evans og reynt að komast í gegnum alla tíu kjúklingavængina, en Lizzo, Gordon Ramsey, Viola Davis, Dave Grohl og Tom Holland eru á meðal þeirra sem gáfust upp á miðri leið.
Nokkrar hugrakkar stjörnur hafa þó náð á leiðarenda og má þar nefna Paul Rudd, Charlize Theron, Padma Lakshmi, Daniel Radcliffe og söngkonuna Lorde.