Knattspyrnumaðurinn Neymar sendi ófrískri kærustu sinni, Brunu Bancardi, opinbera afsökunarbeiðni í langri færslu á Instagram í gær, miðvikudag. Þar segist hann hafa „gert mistök“ og geti ekki ímyndað sér lífið án hennar.
Í apríl greindi parið frá því að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman með sameiginlegri færslu á Instagram. Fyrir á Neymar 12 ára son, Davi Lucca, með fyrrverandi kærustu sinni Carolinu Dantas.
Afsökunarbeiðnin birtist nokkrum dögum eftir að fréttir bárust af því að parið hafi gert „samkomulag“ um ákveðin skilyrði sem verða að vera til staðar ef knattspyrnustjarnan vill vera kærustu sinni ótrúr.
Samkvæmt vef Em Off gerir „samkomulagið“ Neymari kleift að daðra og jafnvel stunda kynlíf með öðrum konum þrátt fyrir að hafa skuldbundið sig Bancardi. Hann þarf þó að uppfylla ákveðin skilyrði, en skilyrðin eru þau að samneyti hans utan sambandsins verði að fara fram í næði, hann verði að nota getnaðarvörn og megi ekki kyssa konurnar á munninn.
„Ég geri þetta bæði fyrir þig og fjölskyldu þína. Réttlæta hið óafsakanlega. Engin þörf á því. En ég þarfnast þín í lífi OKKAR. Ég sá hversu berskjölduð þú varst, hversu mikið þú þjáðist af þessu öllu og hversu mikið þú vilt vera við hlið mér. Og ég stend við hliðina á þér,“ skrifaði Neymar við færsluna.
„Allt þetta snerti eina af sérstökustu manneskjum lífs míns. Konuna sem mig dreymdi um að fylgja mér við hlið, móður barnsins míns. Þetta hefur snert fjölskyldu hennar, sem er fjölskyldan mín í dag,“ bætti hann við.
Í færslunni segist Neymar þegar hafa beðist afsökunar á mistökum sínum en vildi þó staðfesta það opinberlega. „Ef einkamál er orðið opinbert þarf afsökunarbeiðnin að vera opinber. Ég get ekki ímyndað mér lífið án þín.“