Söngvarinn Lewis Capaldi viðurkenndi fyrir áhorfendum sínum á Glastonbury-hátíðinni að hann íhugi að taka sér frí frá sviðsljósinu það sem eftir er af árinu til að ná tökum á geðheilsu sinni. Glímir hann við Tourette-heilkennið og mikinn kvíða, sem hefur gert honum erfitt fyrir að koma fram á tónleikum upp á síðkastið.
Capaldi átti erfitt með að flytja lög sín á Glastonbury-hátíðinni en stuðningsríkir áhorfendur tóku á það ráð að syngja hástöfum með. Tilfinningaþrunginn Capaldi sagði undir lok tónleikanna að aðdáendur hans myndu líklega ekki sjá hann næstu mánuði, mögulega ekki það sem eftir er af árinu.
Ekki yrði þetta fyrsta fríið sem Capaldi færi í á árinu, en í byrjun júní aflýsti hann öllum tónleikum sínum sem voru áætlaðir fram að Glastonbury-hátíðinni.
Tónleikar Capaldi eru áætlaðir hér á landi þann 11. ágúst næstkomandi. Þegar þetta er skrifað eru þeir enn á dagskrá og var nýlega tilkynnt um upphitunaratriði tónleikanna.