Ásgeir Sigurðsson er ungur og framsækinn kvikmyndagerðarmaður og framleiðandi. Hann rekur fyrirtækið LJÓS Films ásamt þremur félögum sínum. Ásgeir er í óðaönn að undirbúa tökur á nýrri íslenskri þáttaröð, Gestir (e. Visitors), en hann mun fara með annað aðalhlutverkanna ásamt Eurovision-stjörnunni, Diljá Pétursdóttur.
Ásgeir segist hafa fengið hugmyndina að þáttunum eftir að hafa lokið fyrsta stóra framleiðsluverkefni LJÓS Films. „Hugmyndin að þáttaröðinni kviknaði í kjölfar velgengni kvikmyndarinnar Harmur, en það var fyrsta stóra framleiðsluverkefni LJÓS Films. Ég og félagi minn, Anton Karl Kristensen, gerðum þá mynd.
Eins og nafnið gefur til kynna þá er það ansi þung mynd og eftir að því ferli lauk var ég spenntur að snúa mér að einhverju léttara, gamla góða gríninu, en mér fannst ég þurfa að koma með eitthvað ferskt og skemmtilegt,“ segir hinn 23 ára gamli Ásgeir um gamanþættina Gesti, sem fara í tökur síðsumars.
Gestir er sjónvarpsefni ólíkt öllu öðru sem komið hefur fyrir á íslenskum markaði og segir Ásgeir þættina svokallaða „body switch comedy.“ Margir mun eflaust eftir Disney-kvikmyndinni Freaky Friday, þar sem leikkonurnar Lindsay Lohan og Jamie Lee Curtis fóru með hlutverk mæðgna og túlkuðu hvor aðra eftir að hafa skipt um líkama.
Þættirnir snerta á mörgu, þar á meðal kynjahlutverkum, fyrstu kynnum og andlegri líðan. „Þættirnir fjalla um Adam og Eydísi, ungt fólk á krossgötum í lífinu. Þau kynnast í gegnum stefnumótaforrit og þegar þau vakna daginn eftir fyrstu kynnin kemur í ljós að þau hafa víxlast á líkömum. Adam og Eydís þurfa að hjálpast að og finna leið til þess að verða þau sjálf áður en verður um seinan,“ útskýrir Ásgeir.
Dilja Pétursdóttir er landsmönnum vel kunn, en hún vann hug og hjörtu þjóðarinnar með flutningi sínum á laginu Power í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí. Hún fer með hlutverk hinnar ungu Eydísar, en samkvæmt Ásgeiri er söngkonan spennt fyrir því að færa út kvíarnar og prófa sig áfram í leiklist.
„Við vissum að það þyrfti sérstaka manneskju til að takast á við hlutverkið, en þetta burðarhlutverk krefst bæði stjörnumáttar og hæfileika. Og ekki auðveldar það að einstaklingurinn þarf að túlka bæði kynin.
Við áttum í smá erfiðleikum þar sem við prufuðum slatta af hæfileikaríku fólki en enginn virtist passa alveg inn í hlutverkið. Svo bara gerðist það, að ég datt fyrir algjöra tilviljun inn á sett fyrir Eurovision–tökur, en þar kynntist ég Diljá og gat ekki annað en boðið henni í leikprufu. Hún heillaði okkur upp úr skónum og er nú að taka sín fyrstu skref í leiklistinni í þáttaseríunni Gestir,“ segir Ásgeir um aðalleikkonuna.
Tökur á þáttaröðinni hefjast í ágúst og eru þættirnir væntanlegir til sýningar á Íslandi í ársbyrjun 2024, en þeir verða sýndir hjá Sjónvarpi Símans Premium. Ásamt Ásgeiri og Diljá verður Viktor Benoný Benediktsson, sem margir þekkja úr kvikmyndinni Berdreymi, einnig með burðarhlutverk í þáttaröðinni, en leikprufur fyrir önnur hlutverk eru enn í gangi.
Samkvæmt Ásgeiri er mikill áhugi á þáttaseríunni erlendis og eru Gestir komnir með erlendan dreifingaraðila sem mun sjá um að selja þá út í heim og því spennandi tímar fram undan hjá Ásgeiri og félögum hans hjá LJÓS Films.