Vilhjálmur Bretaprins og kryddpían Geri Halliwell hafa tekið höndum saman til að kynna nýlegt verkefni Vilhjálms sem miðar að því að sporna við heimilisleysi í Bretlandi. Tvíeykið heimsótti á dögunum grunnskóla í Wales þar sem þau kynntu sér hvernig skólar geta gripið inn í sem fyrst til að koma í veg fyrir að nemendur verði heimilislausir í framtíðinni.
Verkefni prinsins er ætlað að nýta sérfræðiþekkingu stofnana og einstaklinga til að útbúa sérsniðna áætlun til að koma í veg fyrir heimilisleysi í Bretlandi. Í yfirlýsingu sinni vegna verkefnisins segir prinsinn af Wales að í nútímasamfélagi ættu allir að eiga öruggt heimili og með verkefninu vilji hann gera það að veruleika.
Halliwell deildi ferð sinni með prinsinum til Wales á Instagram-reikningi sínum. Segir hún að menntun sé lykillinn að því að rjúfa kynslóðavítahring hvað varðar heimilisleysi. Lýsir hún einnig yfir ánægju sinni með að fá að vera talskona verkefnisins.