Madonna var lögð inn á gjörgæslu fyrr í vikunni. Guy Oseary, umboðsmaður hennar segir að hún hafi fengið alvarlega bakteríu-sýkingu en að hún sé á batavegi.
Oseary sagði að Madonna væri nú komin af gjörgæslu, en að hún þyrfti að dveljast á sjúkrahúsinu næstu daga. Gert væri ráð fyrir að söngkonan myndi ná fullum bata.
Madonna átti að hefja tónleikaferð 15. júlí nk. en Oseary sagði að búið væri að fresta tónleikum hennar þar til nánari fregnir lægju fyrir.
Götumiðillinn Page Six hefur eftir heimildarmönnum sínum að Madonna hafi fundist meðvitundarlaus, og að hún hafi verið sett í öndunarvél um stund.