Grínistinn Pete Davidson hefur nú skráð sig í meðferð í Pennsylvaníu eftir langa og erfiða glímu við andleg veikindi.
Davidson, sem þjáist af jaðarpersónuleika- og áfallastreituröskun, sækir endurhæfingu og meðferðarþjálfun reglulega í þeirri von að endurstilla hugarfarið, finna andlegt jafnvægi og sömuleiðis taka sér andlegt hlé frá óreiðukenndu lífi sínu í Hollywood.
Grínistinn er á sömu meðferðarstöð og náinn vinur hans og samstarfsfélagi, John Mulaney, en hann leitaði sér aðstoðar vegna áfengis- og fíkniefnavanda fyrir nokkru.
Innlögnin kemur aðeins örfáum vikum eftir að Davidson var neyddur til þess að biðja yfirmann dýrahjálparsamtakanna PETA afsökunar, eftir að hann skildi mjög orðljót skilaboð eftir á símsvara hans.
Davidson var einnig ákærður fyrir glannaakstur í tengslum við bílslys sem átti sér stað í Los Angeles fyrr á þessu ári. Hann sat undir stýri á Mercedes Bens-bifreið, með kærustu sína í farþegasætinu, þegar hann missti stjórn á bílnum og lenti á húsi. Engin slys urðu á fólki en húsið hefur nú verið rifið.
Davidson var einungis sjö ára þegar faðir hans lést við störf, hinn 11. september 2001, en hann var slökkviliðsmaður. Eins og restin af heiminum fylgdist Davidson óttasleginn með árásinni í sjónvarpinu og greindist í kjölfarið með áfallastreituröskun.
Heimildarmaður Page Six sagði: „Allir sem þekkja Davidson vita að hann mun alltaf leita sér aðstoðar þegar hann veit að hann þarfnast hennar. Hann er með fullt af fólki í sínu horni sem elskar hann og styður hann.“