Fjölmiðlanefnd hefur sektað Sýn hf. um 500.000 krónur vegna sjónvarpsþáttanna LXS, um líf áhrifavalda í samnefndum hópi, vegna dulinna auglýsinga og viðskiptaboða. Þættirnir voru sýndir á Stöð 2 síðasta haust.
Komst nefndin að því að nokkur innslög þáttanna, um World Class, skartgripamerki, snyrtivörumerki og bílaumboðið Heklu, hafi falið í sér duldar auglýsingar.
„Alla virka daga er ég á skrifstofunni í Laugum. Ég og mamma erum saman með skrifstofu og pabbi við hliðina á okkur,“ er haft eftir einum áhrifavaldi, sem má ætla að sé Birgitta Líf Björnsdóttir, markaðsstjóri World Class, í úrskurði nefndarinnar og talið að ummælin feli í sér dulda auglýsingu. Stefnt er á að framleiða aðra þáttaröð LXS á næstunni.
Þá var talið að innslag eins áhrifavalds um vinnustaðinn sinn, bílaumboðið Heklu, hafi talist til dulinnar auglýsingar: „Velkomin í Heklu, í vinnuna mína. Hérna eyði ég mestmegnis af mínum dögum þegar ég er ekki í skólanum. En ég er búin að vinna hérna í smá tíma með skóla og ætla aðeins að sýna ykkur hvað ég er að gera á daginn. Þannig að „lets go“.“
Í málsatvikakafla úrskurðarins er litið til þess að einn áhrifavaldanna hafi sest inn í neon grænan Skoda, sem sé einn af uppáhaldsbílum hans í Heklu. Á meðan hann láti ummælin falla séu sýndar nærmyndir af bílnum frá nokkrum hliðum.
„Ég elska litinn, ég elska að keyra hann og ég er „a big representative“ fyrir Skoda,“ segir hann í innslaginu.
„Fjölmiðlum er skylt að merkja viðskiptaboð og eiga þau að vera skýrt afmörkuð frá ristjórnarefni miðilsins,“ segir í úrskurði Fjölmiðlanefndar, sem fékk málið á sitt borð eftir að ábending barst Neytendastofu. Undir dulin viðskiptaboð falla duldar auglýsingar, sem erfitt getur verið að greina.
Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að Sýn hf. hafi áður brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla en jafnframt var litið til eðli brots Sýnar hf. og atvika máls að öðru leyti.