Hræðir líftóruna úr fólki

Írski leikarinn Cillian Murphy í hlutverki Oppenheimers.
Írski leikarinn Cillian Murphy í hlutverki Oppenheimers. Universal Pictures

„Sumir ganga í öngum sínum út eftir sýningu. Fólk kemur ekki upp orði. Ég meina, hræðslustuðullinn í sögunni og undirstöðum hennar er hár.“

Þannig kemst bresk-bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Christopher Nolan að orði um nýjustu mynd sína, Oppenheimer, en almennar sýningar á henni hefjast um heim allan eftir tvær vikur. Viðbrögðin á kvikmyndahátíðum, þar sem myndin hefur verið forsýnd, hafa greinilega verið sterk.

Í samtali við tímaritið Wired segir Nolan ástina einnig leiðarstef í myndinni og hún sé eins sterk milli persónanna og nokkru sinni í fyrri myndum hans. Við erum að tala um nokkrar Batman-myndir, Memento, Insomnia, Interstellar, Dunkirk og fleiri.

Christopher Nolan leikstjóri.
Christopher Nolan leikstjóri. AFP/Valerie Macon


Í Oppenheimer glímir Nolan á hinn bóginn við mann sem í raun og sann var til og hafði afgerandi áhrif á mannkynssöguna. Eðlisfræðingurinn J. Robert Oppenheimer var jú kallaður „faðir atómsprengjunnar“ fyrir aðkomu sína að Manhattan-verkefninu fræga í seinni heimsstyrjöldinni.

„Upplifunin er sterk vegna þess að sagan er sterk,“ heldur Nolan áfram í téðu viðtali. „Ég sýndi kollega mínum myndina nýlega og hann sagði um hálfgerða hrollvekju að ræða. Ég er ekki ósammála.“

Engin auðveld svör

Nolan segir sögu Oppenheimers uppfulla af „ómögulegum“ spurningum, eins illsvaranlegum siðferðilegum spurningum og þversögnum. „Það eru engin auðveld svör í þessari sögu, bara flókin svör, sem einmitt gerir söguna svo áhugaverða. Ég held að okkur hafi alveg tekist að finna allskonar hluti í myndinni sem vekja bjartsýni, ég meina það, en það hangir samt stór áleitin spurning yfir öllu. Óhjákvæmilegt var að skilja áhorfendur eftir með spurningar sem skekja heilabúið og stuðla að umræðu.“

Myndin byggist á ævisögu Oppenheimers frá árinu 2005, American Prometheus: The Triumph and Tragedy of J. Robert Oppenheimer eftir Kai Bird og Martin J. Sherwin.

J. Robert Oppenheimer.
J. Robert Oppenheimer. Wikimedia


Bird er einmitt í hópi þeirra sem þegar hafa séð myndina og í spjalli á opnum fundi á vegum Institute for Advanced Study kvaðst hann enn vera að jafna sig andlega eftir þá upplifun. „Þetta á eftir að verða töfrandi listrænt afrek og ég hef væntingar til þess að það muni í raun og sann leiða til samtals hér í Bandaríkjunum og jafnvel á heimsvísu um það sem Oppenheimer dauðlangaði að ræða – það er hvernig lifa skal á atómöld, hvernig lifa á með sprengjunni og McCarthyisma – hvað það þýddi að vera þjóðernissinni og hvaða hlutverki vísindamaðurinn í samfélaginu, sem er gegnsósa af tækni og vísindum, gegnir þegar kemur að því að fjalla um opinber mál.“

Nánar er fjallað um Oppenheimer og myndina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar