Stjörnuparið Katy Perry og Orlando Bloom fór ekki leynt með tilfinningar sínar á tónleikum Bruce Springsteen á Hyde Park í Lundúnum á fimmtudag. Parið trúlofaði sig árið 2019 eftir þriggja ára samband og er enn ástfangið upp fyrir haus.
Perry og Bloom voru á meðal áhorfenda á hinni árlegu British Summer Time–tónleikahátíð og fylgdust með bandaríska rokkaranum trylla lýðinn. Parið fór ekki leynt með ást sína hvort á öðru á tónleikunum, en þau voru mjög innileg og nutu lífsins í örmum hvors annars. Bloom sást meðal annars taka upp símann til þess að ná mynd af parinu í eldheitum sleik.
Parið nýtti þar af leiðandi foreldrafríið til hins ýtrasta, en saman eiga þau tæplega þriggja ára gamla dóttur, Daisy Dove. Bloom á einnig 12 ára gamlan son úr fyrra hjónabandi sínu með ofurfyrirsætunni Miröndu Kerr, en þau voru gift á árunum 2010–2013.
Stjörnufans var á tónleikum Springsteen en ásamt Perry og Bloom mátti einnig sjá Jon Bon Jovi, Stellu McCartney, Emmu Thompson, Rami Malek, Billy Joel og Leslie Mann.