Leikarinn Kevin Costner þarf að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni, Christine Baumgartner, tímabundnið meðlag upp á tæpa 130 þúsund bandaríkjadali á mánuði, samkvæmt bráðabirgðaúrskurði dómara í vikunni.
Upphæðin er meira en tvöfalt hærri en sú sem Costner sagði að væri hæfileg, en Baumgartner hafði þó farið fram á 248 þúsund bandaríkjadali í mánaðarlegar meðlagsgreiðslur. Costner þarf einnig að greiða 200 þúsund bandaríkjadali í málskostnað og 100 þúsund dali í kostnað vegna réttarendurskoðunar.
Skilnaður Costner og Baumgartner þykir ansi hatrammur og hefur mikið gengið á. Baumgartner neitaði að yfirgefa heimili fyrrverandi hjónanna, nema ef Costner greiddi henni hærra meðlag, þrátt fyrir að það hafi komið skýrt fram í kaupmála þeirra að Baumgartner ætti að yfirgefa heimilið 30 dögum eftir að skilnaðarpappírum var skilað inn, sem var þann 1. maí síðastliðinn. Dómari úrskurðaði hins vegar að hún þyrfti að yfirgefa heimilið fyrir lok júlímánaðar.
Baumgartner hefur þó farið fram á að kaupmáli þeirra verði endurskoðaður. Samkvæmt heimildum People gæti Baumgartner misst skilnaðaruppgjör upp á 1,5 milljónir bandaríkjadala, ef hún ákveður að véfengja kaupmálann sem upprunalega var samþykktur.