Verkfall samtaka sjónvarps- og kvikmyndaleikara, Screen Actors Guild, sem hafa aðsetur í Los Angeles, er formlega hafið. Verkfallið markar upphafið af stærstu lokun sem verið hefur í Hollywood í 40 ár. Þessu greindi BBC frá.
Með verkfallinu vonast sambandið til þess að þvinga streymisveitur til þess að fallast á kröfur leikaranna, til að mynda um sanngjarnari skiptingu hagnaðar og betri vinnuskilyrði.
Um er að ræða hóp 160.000 leikara sem eru í verkfalli og bætast þeir í hóp handritshöfunda sem hafa verið í verkfalli um skeið.
Tilkynning um verkfallið kom degi eftir að slitnaði upp úr viðræðum á síðustu stundu.
Leikararnir krefjast hærri launa og betri vinnuskilyrða frá streymisþjónustum, auk þess sem þeir krefjast þess að gervigreind, tölvugerð andlit og raddir verði ekki notaðar í stað leikara.
Stjörnurnar Cillian Murphy og Emily Blunt yfirgáfu Oppenheimer frumsýninguna þegar verkfallið hófst, að sögn leikstjórans Christopher Nolan.
Á blaðamannafundi í Kaliforníu á fimmtudag sagði framkvæmdastjóri sambandsins og aðalsamningamaður að verkfallið væri „tæki til þrautavara.“ „Þeir hafa ekki gefið okkur neina aðra valkosti,“ bætti hann við.