Finnar hrósa ábreiðu Stuðlabandsins

Finnar hafa margir hrósað Magnúsi Kjartani Eyjólfssyni, sögnvara Stuðlabandsins, fyrir …
Finnar hafa margir hrósað Magnúsi Kjartani Eyjólfssyni, sögnvara Stuðlabandsins, fyrir flottan finnskan framburð. Hann segist þó ekki tala stakt orð í finnsku. Samsett mynd

Ábreiða hljómsveitarinnar Stuðlabandsins á finnska Eurovision-laginu Cha Cha Cha, eftir söngvarann Käärijä, rataði í finnska fjölmiðla í vikunni. Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins, hefur einnig hlotið fjölda hrósa fyrir einstaklega góðan finnskan framburð.

Hljómsveitin flutti lagið á fjölskylduhátíðinni Kótelettunni seinustu helgi. Lagið, sem sungið er alfarið á finnsku, lenti í öðru sæti í Eurovision-söngvakeppninni í ár en hlaut lagið flest atkvæði frá áhorfendum. Var það hins vegar hin sænska Loreen sem bar sigur úr býtum í keppninni með laginu sínu Tattoo.

Mjög góður framburður

Á dögunum birti Stuðlabandið myndskeið af ábreiðunni á YouTube. Hefur myndbandið þegar fengið 21 þúsund áhorf og hefur Magnús Kjartan Eyjólfsson, sem syngur og leikur á gítar fyrir hljómsveitina, hlotið mörg hrós frá Finnum sem skilja eftir athugasemdir við myndskeiðið.

„Mjög góður framburður. Kveðjur frá Finnlandi,“ skrifar einn Finni undir myndbandið. „Geggjuð ábreiða. Mjög góður finnskur framburður. Haldið áfram að cha-cha-cha,“ skrifar annar.

Kann ekki stakt orð í finnsku

„Ég tala ekki staf í finnsku. Ég í rauninni veit ekkert hvað ég er að segja í þessum texta,“ segir Magnús Kjartan í samtali við mbl.is. „En hún er þægilegt tungumál upp á það að ég veit hvernig hún er skrifuð.“

Magnús segir að mikil vinna hafi farið í að læra textann utanbókar en hún hafi skilað miklu af sér þar sem hann hefur fengið ýmis hrós fyrir flutning sinn.

„Það sem liggur á bakvið þetta er að lesa textann bara nógu oft og herma eftir hljóðunum sem ég heyri,“ segir Magnús. „Það virðist hafa heppnast. Það er finnsk kona sem er nágranni minn. Hún sagði við mig „Ég er enn þá að leita að villum og ég hef ekki fundið eina einustu“. Það gladdi mig.“

Er hann einnig sáttur með stemninguna sem var meðal áhorfenda á Kótelettunni þegar hljómsveitin tók lagið.

„Þetta er sprengja, þetta lag,“ segir Magnús að lokum.

Magnús Kjartan Eyjólfsson syngur og leikur á gítar fyrir Stuðlabandið.
Magnús Kjartan Eyjólfsson syngur og leikur á gítar fyrir Stuðlabandið. Ljósmynd/Hafsteinn Snær
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar