Leikarinn Joe Manganiello er búinn að sækja um skilnað frá leikkonunni Sofíu Vergara, tveimur dögum eftir að þau tilkynntu um sambandsslitin. Ástæða skilnaðarins er ósættanlegur ágreiningur.
Samkvæmt heimildarmanni bandaríska miðilsins People snerist ágreiningurinn um barneignir. Mangianello vildi eignast barn en Vergara ekki og olli það klofningi þeirra á milli. Annar heimildarmaður segir að fyrrverandi parið hafi einnig tekist á við frægðina með mjög ólíkum hætti og þrátt fyrir að enn væri mikil ást þeirra á milli hafi lítið annað verið hægt í stöðunni en að slíta samvistum.
Manganiello og Vergara gengu í það heilaga við glæsilega athöfn á Palm Beach í nóvember 2015, en 400 manna gestalistinn var stjörnum prýddur.