„Þetta byrjaði eiginlega bara á því að ég var að skoða þrívíddarprent fyrir eitthvað verkefni sem ég var að vinna,“ segir hinn Gunnar Dagur Einarsson.
Hinn 17 ára gamli Gunnar lærði þrívíddarkvikun (e. 3D-animation) á eigin spýtur og er hann strax farinn að smíða myndefni fyrir vinsælustu rappara landsins, meðal annars Daniil, Gísla Pálma og Yung Nigo Drippin'.
Gunnar er hluti af samvinnuhópi sem kallar sig FlySouth. Hópurinn saman stendur af honum og nokkrum góðum vinum hans. Saman hafa þeir aðstöðu á Kársnesi þar sem þeir leika listirnar margar, hvort sem það snerti tónlist, föt eða einmitt þrívíddarkvikun.
„Við göngum undir nafninu FlySouth. Við erum svona sjö eða átta saman með þetta,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is. Segir hann hópinn samanstanda af vinum sem hafa þekkst síðan í grunnskóla.
Sem fyrr segir byrjaði þetta á því að Gunnar var að skoða þrívíddarprent fyrir eitthvað verkefni sem hann var að vinna að. Þar kviknaði áhuginn fyrst.
„Ég vil líka bara alltaf vera að læra eitthvað nýtt. Ég hef reyndar aldrei farið í neitt nám í þessari 3D-vinnu. Ég lærði þetta allt eiginlega bara sjálfur.“
Fyrsta stóra verkefnið hans var myndefni fyrir rapparann Elvar, sem steig nýlega í sviðsljós íslensku rappsenunnar og er einnig hluti af hópnum FlySouth. Myndabandið hér að neðan gerði Gunnar fyrir lagið Lágmenning.
„Ég gerði stutt myndband fyrir hvert einasta lag á plötunni hans og líka svona visual-a,“ segir Gunnar en svokallaðir „visual-ar“ er myndefni sem tónlistarmenn spila gjarnan í bakgrunni þegar þeir syngja eru upp á sviði.
Ekki leið að löngu þar til hann var farinn að smíða myndefni fyrir fleiri tónskáld. Gerði hann meðal annars myndband fyrir nýja lag íslenska rapparans Yung Nigo Drippin‘. Nefnist lagið Háspenna. Hefur hann einnig gert „visual-a“ fyrir rapparana Daniil og Issa.
Gunnar kveðst einnig hafa mikinn áhuga á myndlist. Mun hann hefja nám við Myndlistaskólann í Reykjavík í haust en hann skipti þangað úr Menntaskólanum í Hamrahlíð, en þar hefur hann verið við nám í tvö skólaár, þar sem hann er fæddur árið 2005.
„Þar get ég verið að vinna í listinni og hinu samtímis,“ segir hann. „Ég hef alltaf verið að vinna í einhverri hugmyndavinnu. Ég hugsaði bara að ef ég ætla að vera í einhverju námi þá verð ég að læra eitthvað sem ég hef áhuga á.“
Gunnar segist njóta sín í þrívíddarkvikuninni og kveðst vilja halda áfram að bæta sig í listinni og læra flóknari hluti. Í augnablikinu smíðar hann myndefni fyrir rapparana Gísla Pálma og Issa. Auk þess vinni hann líka í verkefni með fatamerki sem nefnist Gildran.
„Ég sé ekki fyrir mér að hætta í þessu. Ég vil alltaf læra meira, gera eitthvað nýtt og vinna með fleirum,“ segir hann. „Ég elska þetta. Ég er líka að vinna með félögum mínum og ég sé það heldur ekkert ætla að hætta.“