„Kvöldið sem ég glataði frelsinu“ 

Þórunn Salka frumflytur lagið Freedom á sviði Druslugöngunnar á Austurvelli …
Þórunn Salka frumflytur lagið Freedom á sviði Druslugöngunnar á Austurvelli á laugardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Þetta var kvöldið sem ég glataði frelsinu, segir í viðlagi lagsins Freedom sem tónlistarkonan Þórunn Salka sendi frá sér á miðnætti. Freedom er fyrsta lagið sem Þórunn gefur út, en lagið leit dagsins ljós í kjölfar kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir í Los Angeles fyrir þremur árum síðan.

Þórunn mun frumflytja lagið á sviði Druslugöngunnar á Austurvelli í dag, laugardaginn 22.júlí. 

Hlusta má á lagið Freedom á Spotify. 

Vann úr áfallinu með hjálp tónlistar

„Fyrir þremur árum síðan lenti ég í áfalli og það er eftir það sem ég sem þetta lag. Það var í rauninni aldrei planið að búa til lag úr því, þetta var bara mín leið til þess að fá útrás fyrir tilfinningar mínar,“ segir Þórunn. 

„Það tengja eflaust margir við það að það getur verið erfitt að tala um hvernig manni líður eftir áfall af þessu tagi. Það er kannski smá klisjulegt að segja þetta, en það var auðveldara fyrir mig að syngja og skrifa um lagið en að tala um það. Þannig að þetta varð einhvern veginn að því verkfæri sem ég notaði til þess að vinna úr þessi, ásamt góðri hjálp sem ég er mjög þakklát fyrir.“

Ætlaði alltaf að standa uppi sem sigurvegari

Að sögn Þórunnar endurspeglar texti lagsins, sem er á ensku, hennar eigin vegferð eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. „Þetta snýst um þær tilfinningar sem að ég gekk í gegnum eftir þetta áfall og það er náttúrulega algjör tilfinningarússíbani, segir hún. 

Þórunn Salka er ung og upprennandi tónlistarkona.
Þórunn Salka er ung og upprennandi tónlistarkona. Ljósmynd/Aðsend

„Í viðlaginu segir „the night I lost my freedom“ vegna þess að mér leið eins og ég hefði verið svipt frelsinu. Maður var allt í einu hræddur við hluti sem maður hafði aldrei verið hræddur við áður.

Lagið felur í sér brekku sem endar á sigri, en í lokin svara ég viðlaginu með sterkum skilaboðum um það að ég hafi sigrað. Ég skrifaði endinn viljandi með þessum hætti því ég var ákveðin í því að leyfa þessu ekki að sigra mig. Ég er algjör tilfinningavera en einhvern veginn er ég líka alltaf staðráðin í því að finna bjartari tíma þó það geti oft verið ótrúlega erfitt,“ bætir Þórunn við sem tekist hefur á við áfallið með hugrekki og þrautseigju sér að leiðarljósi.

Þakklát Kaktusi

Tónlistarmaðurinn Kaktus Einarsson vann að laginu ásamt Þórunni og segir hún samstarfið milli þeirra tveggja hafa gengið eins og best verði á kosið. 

„Þetta hefur verið mjög persónulegt samstarf. Ég er mjög smámunasöm með allt og það er mjög mikilvægt fyrir mig að koma öllu frá mér rétt og eins og ég vil að hlutirnir séu. Kaktus er bara algjörlega búinn að lesa hugsanir mínar og vera frábær samstarfsmaður í þessu ferli,“ segir Þórunn. 

Dagbók með „peppsniði“

Aðspurð segir Þórunn tónlistina sína vera að miklu leyti byggða á hennar eigin tilfinningum og upplifunum. „Ég skrifa alltaf um tilfinningarnar mínar, þannig að þetta er svolítið eins og ég sé að gefa út dagbók, nema með smá peppsniði. Þetta eru stemningslög, en ef maður hlustar á textana er yfirleitt sterk saga eða mikilvæg skilaboð sem liggja að baki.“

Þórunn, sem hefur haldið tónlistinni fyrir sjálfa sig fram að þessu, þótti Druslugangan tilvalinn vettvangur til þess að frumflytja fyrsta lagið sitt. „Ég var tilbúin með þetta lag og ætlaði að gefa það út í sumar og fannst bara við hæfi að gefa það út í þessari viku,“ segir Þórunn. 

Hún segir skipuleggjendur Druslugöngunnar hafa tekið vel á móti sér. „Ég heyrði í þeim og þær voru ótrúlega jákvæðar fyrir þessu. Druslugangan er tækifæri til þess að gefa þolendum rödd og þetta er ein leið til þess.

Druslugangan hefur klárlega hjálpað mér að þora að taka þetta skref, segja mína sögu og gefa út þetta lag,“ segir Þórunn sem kveðst vera meyr yfir þeim stuðningi þakklát fyrir að fá tækifæri til að flytja lagið á viðburði sem hefur mikla þýðingu fyrir henni sjálfri.

„Ótrúlega þakklát drusla“

Að mati Þórunnar einkennist Druslugangan af samstöðu, skilningi og hugrekki. „Þetta er ótrúlega mikilvæg barátta og það skiptir svo miklu máli það sé fólk sem öskrar hátt þegar aðrir þora ekki. Það eru eflaust mjög margir sem eru að ganga í gegnum alls konar og segja aldrei frá því. Þá er svo ótrúlega mikilvægt að það sé eitthvað í samfélaginu sem geti gripið mann og maður geti verið hluti af.“

Loks segist Þórunn hlakka að stíga á svið með lagið sitt, en þakklæti og baráttuvilji eru henni efst í huga.

Ég er ótrúlega þakklát drusla. Þakklát fyrir þetta samfélag af mögnuðu fólki. Þakklát fyrir samstöðuna. Þakklát fyrir baráttuna. Þakklát fyrir Druslugönguna sem þýðir allt fyrir mér, en hún hjálpaði mér að þora að segja mína sögu,“ segir Þórunn. 

„Aldrei hætta að láta í ykkur heyra og aldrei leyfa neinum að taka frelsið ykkar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hjól lífsins halda áfram að snúast þó maður fyrirgefi óvini sínum. Skap þitt er þannig þessa dagana að þú ættir að telja upp að tíu áður en þú svarar einhverjum fullum hálsi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Torill Thorup
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hjól lífsins halda áfram að snúast þó maður fyrirgefi óvini sínum. Skap þitt er þannig þessa dagana að þú ættir að telja upp að tíu áður en þú svarar einhverjum fullum hálsi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Torill Thorup
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup