„Mér finnst þetta bara óheiðarlegt“

Snorri Másson Skoðanabróðir gagnrýnir orð Eiríks Rögnvaldssonar.
Snorri Másson Skoðanabróðir gagnrýnir orð Eiríks Rögnvaldssonar. Samsett mynd

Snorri Másson fjölmiðlamaður gagnrýnir í nýjum þætti Skoðanabræðra viðbrögð Eiríks Rögnvaldssonar prófessors við ummælum Heiðars Guðjónssonar fjárfestis um stöðu íslenskrar tungu

Heiðar Guðjónsson hafði í hlaðvarpi Skoðanabræðra lýst áhyggjum sínum af afdrifum íslenskrar tungu og þar með menningar ef fólksfjölgun á Íslandi yrði áfram einkum á forsendum þess að tugir þúsunda innflytjenda flytji til landsins á ári hverju, sem fæstir læra íslensku.

Eiríkur brást við þeim málflutningi með því að að segja Heiðar ala á útlendingaandúð undir formerkjum málverndar.

Snorri segir þá nálgun Eiríks óheiðarlega. „Ef þú lest það sem Heiðar segir og enn fremur ef þú hlustar á það þá raunverulega, og ég er ekki að þykjast vera heimskur, þá finn ég ekki hvar útlendingaandúðin er. Hann er bara að velta þessu upp. Þetta eru breytingar sem eru að verða. Hvað finnst okkur um það, er hann að segja,“ segir Snorri.

„Ég veit að Eiríkur er mjög menntaður maður og mjög vanur því að lesa texta. Þannig að ég hugsa bara: Er þetta heiðarlegt mat hans að það sé útlendingaandúð í því að benda á þetta? Vegna þess að Heiðar talar aldrei um útlendingana. Hann er ekkert að tala um þá, þeirra eiginleika eða þeirra menningu eða neitt þannig. Mér finnst þetta bara óheiðarlegt,“ segir Snorri.

Ekki lengur töluð íslenska í búðum

Snorri sagði Eirík hafa barist ötullega fyrir íslenskri tungu í gegnum tíðina en að hann hafi tilteknar hugmyndir um það hvernig það skuli gert.

„Hann er mikið að passa tóninn hjá öðrum. Hann er kannski efnislega sammála fólki en mikið að passa tóninn. En hann hefur unnið mikið starf við að vekja athygli á þessu málefni,“ segir Snorri.

Umræddar breytingar hafi þegar leitt til stóraukinnar enskunotkunar í íslensku samfélagi, sem er á meðal þess sem Heiðar gerði athugasemdir við í þættinum.

Snorri: „Það er ekki lengur töluð íslenska í búðum og ef þú hringir á pítsustað eða eitthvað slíkt, þá er rosalegur hluti íslensks samfélags núna kominn á ensku. Ég er ekki ánægður með það og það eru margir sem eru ekki ánægðir með það.“

„Heiðar var að tala um þetta og þetta blasir bara við. Þetta er þróun sem er að verða og við getum alveg snúið henni aðeins við ef við breytum aðeins áherslum okkar,“ segir Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar