Bandaríska söngkonan Madonna þakkaði aðstandendum sínum fyrir stuðninginn síðustu vikur eftir að hún var lögð inn á sjúkrahús með alvarlega bakteríusýkingu. Söngkonan birti myndir og kveðju á Instagram-reikningi sínum í gærdag en þar segist hún heppin að vera á lífi.
Madonna fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í New York-borg í júní og var í kjölfarið flutt á sjúkrahús þar sem hún var í nokkra daga á gjörgæslu.
„Ást frá fjölskyldu og vinum er besta meðalið. Nú þegar einn mánuður er liðinn frá spítalavistinni get ég leyft mér að hugleiða,“ skrifaði poppstjarnan á Instagram. „Sem móðir getur þú auðveldlega misst yfirsýnina og einbeitt þér eingöngu að þörfum barnanna en nú þegar ég þurfti á hjálp að halda voru börnin öll til staðar fyrir mig. Ég sá hlið á þeim sem ég hafði aldrei séð áður,“ skrifaði Madonna.
Á myndunum sést söngkonan faðma son sinn, David Banda, og stilla sér upp við hlið dóttur sinnar, Lourdes. Söngkonan á einnig soninn Rocco og dæturnar Mercy, Estere og Stellu.
Madonna átti að hefja tónleikaferð 15. júlí en áætlað er að söngkonan stígi á svið í Lundúnum þann 14. október næstkomandi.