Hinn heimsþekkti breski listamaður David Hockney málaði mynd af Harry Styles nú á dögunum. Ekki virtist þó listmálarinn þekkti átta sig mikið á frægð Harry Styles.
Hockney mun opna sýningu á eigin verkum í National Portrait Gallery í Lundúnum nú í nóvember og verður myndin þar til sýnis. Á sýningunni verða um 160 verk af ferli listamannsins, þar á meðal nýlegri verk sem máluð voru á árunum 2021 og 2022.
Í maí síðastliðnum málaði hann Styles á tveimur dögum í vinnustofu sinni í franska héraðinu Normandí. Hockney er nú 86 ára gamall.
Styles sagði sjálfur að hann bæri mikla virðingu fyrir Hockney og að það væri honum mikill heiður að vera málaður af honum. Alla jafnan málar Hockney ekki frægt fólk. Þó virðist hann hafa gert undantekningu í tilfelli Styles, samkvæmt The Sunday Times.
„Ég áttaði mig ekki almennilega á frægð hans. Hann var bara einhver manneskja sem kom á vinnustofu mína. Núna veit ég að Harry er mjög frægur og hef síðan horft á öll tónlistarmyndbönd hans,“ er þar haft eftir Hockney.