Claudette Dion, systir Celine Dion, sagði nýverið frá því að söngkonan hafi átt í miklum erfiðleikum með að finna meðferð við sjúkdómnum sem hún er greind með, en hún glímir við sjaldgæfu taugaröskunina Stiff Person Syndome (SPS).
Claudette Dion greindi frá því í viðtali við Le Journal de Montreal að þrátt fyrir að hafa unnið með „reyndustu vísindamönnum á þessu sviði“ hafi Grammy-verðlaunahafanum, 55 ára, gengið illa að ná einhverjum bata.
„Okkur hefur ekki tekist að finna lyf sem virkar, en það er mikilvægt að halda í vonina,” sagði Claudette Dion, 74 ára.
Celine Dion aflýsti öllum tónleikum, sem fyrirhugaðir voru í ár og næsta ári, vegna veikindanna, en óvíst er hvort söngkonan muni koma fram á ný.
Samkvæmt National Institue of Health er sjúkdómurinn afar sjaldgæfur og truflar starfsemi miðtaugakerfisins, en hann veldur stífni í búk og útlimum.