Rapparinn Tory Lanez hefur verið dæmdur til tíu ára fangelsisvistar fyrir skotárás gegn rapparanum Megan Thee Stallion. Hann var fundinn sekur í desember og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Skotárásin olli því að Stallion þurfti að fara í aðgerð til að fjarlægja brot úr byssukúlum úr fæti hennar. BBC greinir frá.
Eftir dóminn sagði héraðssaksóknari Los Angeles að frægð Stallion hefði hjálpað til við að vekja athygli á ofbeldi gegn konum. Tanishia Wright, forstöðukona þjónustu fórnarlamba hjá saksóknara í Los Angeles, sagði við blaðamenn eftir dómsuppkvaðningu að ofbeldi gegn svörtum konum og stúlkum væri langvarandi og landlægur faraldur sem lengi hefur verið litið framhjá og fáar árásir verið tilkynntar. Því fagnaði hún niðurstöðu dómsins.