„Tónlist er frekar leiðinleg ein og sér“

Fannar Ingi Friðþjófsson er forsprakki hljómsveitarinnar Hipsumhaps. Hann er nýfluttur …
Fannar Ingi Friðþjófsson er forsprakki hljómsveitarinnar Hipsumhaps. Hann er nýfluttur til landsins eftir ársdvöl í Danmörku.

Fannar Ingi Friðþjófsson forsprakki hljómsveitarinnar Hipsumhaps flutti heim til Íslands í síðustu viku eftir að hafa búið í eitt ár með kærustu sinni í Árósum í Danmörku. Á meðan hann dvaldi í Danmörku samdi hann lög og texta, kenndi nokkrum meisturum stærðfræði og vann að sjónvarpsþáttum. Í dag kemur lagið Hjarta út en það er lag númer tvö af nýjustu plötu Hipsumhaps Ást & praktík sem kemur út í haust. 

Þegar mbl.is náði í skottið á Fannari þá sagðist hann vera örlítið þreyttur. Flutningarnir á milli landa hefðu tekið á. 

„Ég er ljómandi góður en þreyttur. Flutti heim frá Árósum í Danmörku í síðustu viku þar sem ég hef búið í eitt ár með kærustunni minni á meðan hún klárar nám. Smá svonaPhilip í fyrstu seríu afTheQueen stemning,“ segir Fannar og hlær. 

Arnar Ingi og Fannar Ingi í Berlín.
Arnar Ingi og Fannar Ingi í Berlín.

Hefur þú verið að vinna bara í tónlistinni úti eða hefur þú verið að gera eitthvað annað með?

„Ég hef aðallega verið að taka upp plötuna en líka tekið að mér hliðarverkefni í listrænni stjórnun og verið með nokkra meistara í stærðfræðikennslu. Ég er líka að skrifa sjónvarpsþætti. Ég hugsa að ég þurfi alltaf að gera eitthvað með tónlistinni. Tónlist er frekar leiðinleg ein og sér. Ég væri mest til í að vera kennari,“ segir hann. 

Einn vinsælasti smellur hljómsveitarinnar Hipsumhaps er LSMLÍ eða Lífið sem mig langar í. Þegar Fannar er spurður að því hvernig lífi hann lifi sjálfur þá glottir hann. 

„Held ég viti hvaða svari þú ert að fiska eftir, „lífinu sem mig langar í“,“ segir hann og hlær og bætir við:

„En ég er frekar mikið fiðrildi. Mamma segir stundum að ég sé eins og þeytispjald sem er alveg rétt og ég á það til að keyra mig um koll. Mér finnst gaman að fara á tónleika, spila golf og horfa á sjónvarpið. Frekar „basic“stöff. Ég borða ekki dýr og ég elska gíraffa,“ segir hann í léttum dúr. 

Óskar Guðjónsson spilar á plötunni.
Óskar Guðjónsson spilar á plötunni.

Langt og subbulegt ferli 

Hvernig kemur andinn yfir þig við tónlistargerð?

„Ég er sveimhugi í eðli mínu og gríp því ýmislegt áhugavert í daglegu amstri sem innblástur eða sé hluti í nýju ljósi. Það er oft kannski kveikjan. Lag sem ég hef heyrt milljón sinnum en fatta fyrst núna hvað það er geðveikt og blanda því saman við kjarnaminningar. Í kjölfarið punkta ég eitthvað niður eða muldra upptöku í símann og sest svo niður mánuðum seinna og púsla saman lagi. Það er yfirleitt langt og subbulegt ferli hjá mér að semja og taka upp lag og í því ferli eru hæðir og lægðir. Að semja þessa plötu var í fyrsta sinn sem ég hef gefið mér tíma frá 9 til 5 til þess að semja tónlist. Ég fílaði það mjög vel.“

Þegar fólk er í skapandi vinnu getur gengið á ýmsu. Þegar Fannar er spurður að því hvort það hafi ekki eitthvað sniðugt gerst á tónlistarferlinum segir hann að margar sögur þoli ekki dagsljósið. 

„Úff, þær eru nokkrar góðar sem rata kannski ekki í blöðin. En ég hef gaman af mörgum augnablikum með Arnari Inga Ingasyni sem hefur bæði hljóðblandað og útsett tónlist með mér. Hann er ógeðslega skemmtilegur. Hann prumpaði til dæmis á kveikjara þegar við vorum að klára plötuna hjá honum í Berlín og ég hef aldrei séð svona stóran blossa á ævinni. Alveg Oppenheimer dæmi, sveppaský, og við grétum úr hlátri í svona þrjá klukkutíma. Við erum ekki þroskaðri en þetta enda engin ástæða til þess. Svo hefur vinur minn Tambó Kri stundum spilað með mér án þess að vera gera neitt músíkalskt á sviðinu eða verið tengdur við neitt. Bara fullur í friði. Stemningsmaður, Þróttari,“ segir hann og brosir. 

Atli Bollason textahöfundur.
Atli Bollason textahöfundur.

Átakanlegt á köflum 

Hvernig er stemningin í bandinu. Eruð þið alltaf sammála?

„Stemningin er frekar næs að svo stöddu en það hafa alveg verið teknir slagir í gegnum tíðina. Þetta er oft fokking erfitt ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Í grunninn er Hipsumhaps bara ég og aðrir koma síðan og fara. Ég fjármagna upptökurnar og tek endanlegar ákvarðanir af bestu getu. Ég vil auðvitað vera samkvæmur sjálfum mér án þess að vera einhver einræðisherra eða klæðast nýju fötum keisarans. Það getur stundum verið fín lína í þessu og þá leita ég ráða til þeirra sem eru nálægt mér með hvað ég eigi að gera. Ég er yfirleitt frekar hress en ég get líka verið skapstór sem fer misvel ofan í fólk. Markmiðið er samt alltaf að vera sanngjarn. Ég er smá eins og Marc Bolan í T. Rex. Nema ég sökka á gítar.“

Fannar fékk plötuspilara í afmælisgjöf í fyrra og féll fyrir vínylforminu. Nýjasta plata Hipsumhaps ber þess merki. 

„Ég fékk plötuspilara í afmælisgjöf í fyrra sem veitti mér innblástur með að nálgast plötuna út frá vínylformi. Tólf lög sem skipa A og B hlið. Ég ákvað líka snemma í ferlinu að prófa vinna með nýju fólki og það gaf mér miklu meira en mig grunaði. Ég og Kiddi, Kristinn Þór Óskarsson, höfum fram að þessu bara spilað saman á sviði en þegar ég fól honum þetta verkefni í hendurnar, að taka upp þriðju plötuna, fékk ég að kynnast því að hæfileikar hans ná langt umfram hljóðfæraleik. Ég er mjög þakklátur fyrir hann. Ég ögraði líka sjálfum mér með því að skrifa texta með öðrum. Ég hef alltaf skrifað einn en núna langaði mig að prófa gera eitthvað nýtt. Atli Bollason er algjör skepna í þessari deild þannig ég heyrði í honum og hann setti sterkan svip á plötuna ásamt því að vera með mig í hálfgerðri sálgæslu í leiðinni. Ég var mjög gagnrýninn á textana sem ég hafði skrifað en honum fannst þeir bara frekarnæs. Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð frá þeim sem hafa heyrt plötuna og ég hlakka til þess að deila henni með fólki. Það er vonandi eitthvað fyrir alla á þessari plötu. Frá Gummakíró til Egils Helgasonar og allra þeirra á milli. Sérstaklega Kleina,“ segir hann og á þá við áhrifavaldinn Kristján Einar. 

Söngkona Rakel Sigurðardóttir kemur fyrir á plötunni.
Söngkona Rakel Sigurðardóttir kemur fyrir á plötunni.

Mikilvægt að sjá fyrstu viðbrögð

Hvað hefur gerst á leiðinni sem stendur upp úr?

„Ég held að þessi plata sé skemmtilegasta ferli sem ég hef tekið þátt í hingað til. Ég og Kiddi skipulögðum tökurnar virkilega vel en leyfðum hlutunum líka bara að flæða. Það eru nokkur augnablik sem standa upp úr en það er erfitt er að koma þeim í orð. Eitthvað æðra var í gangi sem fólk mun heyra á plötunni en enginn fíla meira en við. Það eru hápunktar plötunnar fyrir mér.“

Þriðja breiðskífa Hipsumhaps Ást & praktík kemur út á streymisveitum þann 1. október en fyrst verður hún fáanleg á vínyl þann 15. september. Í tilefni vínylútgáfunnar verður haldin sérstök tónleikaröð á neðri hæð KEX Hostel þar sem fólki gefst tækifæri á að upplifa plötuna fyrst í gegnum lifandi flutning og tryggja sér nýpressað vínyleintak og með því. 

„Hugmyndin að þessum tónleikum kom snemma í ferlinu. Að flytja plötuna „live“ áður en hún verður gefin út. Ég er nefnilega spenntur að sjá viðbrögð fólks þegar það heyrir lögin í fyrsta skipti. Í raun er ég kokhraustur því mér finnst þessi plata feit og ég er með eitt flottasta band landsins á bakvið mig. Við munum halda ferna tónleika í salnum niðri á KEX Hosteli, 14., 15., 28. og 29. september. Vínyllinn verður til sölu og það verða gefins smokkar og kokteilaseðill á barnum sem verður byggður á lagalista plötunnar. Við verðum að hafa smá gaman að þessu. Ég veit að fólk sem fílar Hipsumhaps á eftir að kunna að meta þetta. Annars er alveg umtalað í bransanum hvað það gengur illa að selja tónleikamiða þannig fólk má fara hysja upp um sig buxurnar. Við þurfum að vera meira eins og Danir. Stemningsfólk,“ segir Fannar. 

Lagði Hjarta er útsett af Fannari Inga og Kristni Þór Óskarssyni sem leikur einnig á gítar og bassa. Textinn er saminn af Fannari og Atla Bollasyni. Hugmyndin að textanum á rætur sínar að rekja í hjartagalla sem Fannar greindist með þegar hann var lítill. Það var þó aðeins kveikjan en í kjölfarið komu önnur viðfangsefni á teikniborðið eins og ást, heilsukvíði og lágt sjálfsálit sem hjálpuðu að móta karakterinn í laginu.

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Mjög vel. Ég er alltaf hrifinn af vetrinum. Ég á afmæli 30. október, þá verð ég 32 ára. Ég ætla bara að spila padel og leggja vel inn í reynslubankann svo næsta sumar verði næs.“

Þorvaldur Halldórsson.
Þorvaldur Halldórsson.
Kristinn Þór Óskarsson.
Kristinn Þór Óskarsson.
Upptökur fóru fram í Sundlauginni, Studio Kisa og Stereoworld í …
Upptökur fóru fram í Sundlauginni, Studio Kisa og Stereoworld í Berlín. Í skipsbrúnni er glæsileg áhöfn: Óskar Guðjónsson spilar á saxófón, Tómas Jónsson á hljómborð, Þorvaldur Halldórsson á trommur, Árni Kristjánsson hristir tambúrínu og Rakel Sigurðardóttir syngur bakraddir. Hljóðblöndun var í höndum Arnars Inga Ingasonar og Emil Thomsen hljómjafnaði.
Tómas Jónsson spilar á píanó.
Tómas Jónsson spilar á píanó.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vanræktu hvorki vini þína né vandamenn. Eitthvað í undirvitundinni segir þér að fara varlega í umferðinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vanræktu hvorki vini þína né vandamenn. Eitthvað í undirvitundinni segir þér að fara varlega í umferðinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård