Tónlistarmaðurinn Jónfrí sendir frá sér lagið Andalúsía í dag, föstudaginn 18. ágúst. Laginu fylgir b-hliðin Sumarið er silungur og eru þetta fyrstu lögin af væntanlegri breiðskífu hans.
Jónfrí er listamannsnafn Jóns Frímannssonar, sem er grafískur hönnuður, pabbi í Vesturbænum og plötusnúður á eftirlaunum. Lýsir Jónfrí tónlist sinni sem kærulausri tónlist um hversdagsleg málefni eins og sápukúludiskó, sangríu og íslensku þjóðarsálina.
„Ég samdi Andalúsíu á kassagítar og var að reyna að færa í stílinn þessa ævarandi leit okkar að réttu stemningunni,“ segir Jónfrí um lagið Andalúsíu. Segir Jónfrí lagið Sumarið er silungur vera ástarbréf sitt til íslenska sumarsins, gamla Staðarskála, jójó-æðisins og grásleppukarlanna.