Drottning rómantísku gamanmyndanna, Meg Ryan, snýr aftur á skjáinn í nýrri kvikmynd, What Happens Later, sem frumsýnd verður síðar á árinu. Lítið hefur farið fyrir leikkonunni undanfarin ár en nú síðast fór hún með hlutverk Mrs. Macauley í kvikmyndinni Ithaca sem kom út árið 2015.
Mikil spenna ríkir fyrir endurkomu Ryan enda hafa allir helstu Hollywood-draumaprinsarnir fallið fyrir henni á skjánum. Í þetta sinn er það David Duchovny, sem margir þekkja úr þáttaseríunni X-Files, sem Ryan mun að öllum líkindum heilla upp úr skónum.
Bandaríska kvikmyndafyrirtækið Bleecker Street frumsýndi stiklu úr kvikmyndinni á miðvikudag, en hún sýnir Ryan, 61 árs, og Duchovny, 63 ára, rekast á hvort annað eftir margra ára fjarveru á flugvelli þar sem þau eru bæði veðurteppt. Ásamt því að leika annað aðalhlutverkanna er Ryan einnig leikstjóri kvikmyndarinnar.
What Happens Later er sögð fanga hinn klassíska „rom-com“ anda tíunda áratugarins og er því til mikils að hlakka til.