Leikarinn Danny Masterson hefur verið settur á sjálfsvígsvakt í fangelsinu þar sem hann dvelur. Masterson var dæmdur í 30 ára fangelsi á fimmtudag fyrir að nauðga tveimur konum snemma á þessari öld.
Leikarinn, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Steven Hyde í That 70’s Show, er undir sérstöku sólarhringseftirliti þar sem hann dvelur, en leikarinn bíður nú eftir því að verða fluttur í varanlegt varðhald í Kaliforníu.
Samkvæmt heimildarmanni vefmiðilsins TMZ þá eru lögreglu- og gæslumenn fangelsins að fylgjast vel með Masterson og kíkja á leikarann í fangaklefa hans á 30 mínútna fresti, en verið að meta geðheilbrigði Masterson og reyna að koma í veg fyrir sjálfsskaða.
Leikarinn var dæmdur fyrir að nauðga tveimur konum á heimili sínu í Hollywood Hills árin 2001 og 2003.
Hann var einnig kærður fyrir að nauðga einni annarri konu en kviðdómurinn taldi að ekki væri hægt að sanna það með nógu góðum sönnunargögnum. Saksóknari segir að Masterson hafi byrlað konunum og síðan beitt þær ofbeldi.
Ef þú upplifir sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.