Tónlistarkonan Lizzo hefur verið harðlega gagnrýnd vegna háttarlags síns á samfélagsmiðlum síðastliðna daga, en söngstjarnan hefur verið dugleg að deila myndskeiðum af sér þrátt fyrir að vera í miðju málaferli við fyrrverandi dansara hennar sem ásaka söngkonuna meðal annars um kynferðislegt áreiti.
Lizzo birti myndskeið á sunnudag en í því sést hún hrista rassinn framan í myndavélina.
„Bakhliðin hljómar eins og bongótrommur,“ skrifaði hún við færsluna, en tónlistarkonan er þekkt fyrir að birta myndir og myndskeið sem sýna hana „twerk-a“ íklædd baðfötum.
Fylgjendur stjörnunnar voru margir hverjir ósáttir við háttsemi söngkonunnar og sögðu frá því í athugasemdarkerfinu. „Ég vildi að þú myndir takast á við það sem er að gerast af einhverri alvöru. Þetta er mikil óvirðing," sagði einn þeirra sem gagnrýndi myndskeið hennar á Instagram.
Í byrjun ágústmánaðar var greint frá því að þrír dansarar tónlistarkonunnar hefðu höfðað mál gegn henni. Er Lizzo meðal annars sökuð um að skapa fjandsamlegt vinnuumhverfi og fyrir kynferðislegt og trúarlegt áreiti, ásamt mismunun á grundvelli fötlunar.
Sjálf birti söngkonan færslu á Instagram þegar ásakanirnar gegn henni komu fyrst í ljós og sagði hún meðal annars að „dönsurunum hafi verið tilkynnt að hegðun þeirra á tónleikaferðalaginu hafi verið óviðeigandi og ófagmannleg.“