Leikarinn Chris Evans gekk í hjónaband með portúgölsku leikkonunni Ölbu Baptista um helgina. Leikaraparið fagnaði ástinni með fámennum hópi á laugardaginn að því fram kemur á vef People. Evans var valinn kynþokkafyllsti maður heims í fyrra af sama miðli og er hann þar með formlega genginn út.
Athöfnin fór fram á einkalóð á Cape Cod í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum. Margir frægir vinir hjónanna sáust í nágrenni Boston um helgina. Þar á meðal meðleikarar hans úr Marvel-myndunum Robert Downey Jr. og eiginkona hans Susan Downey. Leikarinn Chris Hemsworth og eiginkona hans Elsa Pataky voru líka á svæðinu sem og leikarinn Jeremy Renner. Einnig sást til leikarahjónanna Johns Krasinskis og Emily Blunt.
Evans hefur leikið í fjölda kvikmynda og þáttaraða á ferli sínum, en hann er líklega hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk ofurhetjunnar Kafteinn Ameríka í Marvel-kvikmyndunum.
Baptista er þekktust fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Mrs. Harris Goes to Paris. Þá talar hún fimm tungumál, en hún er dóttir verkfræðings og þýðanda. Hún hefur varið talsverðum tíma til mannúðarstarfs, meðal annars á munaðarleysingjahæli í Kambódíu.