Söngkonan Bríet bauð í kvöld í heljarinnar útgáfupartí þar sem samstarfi hennar við Ölgerðina var fagnað. Um 250 manns mættu í partíið og fengu að smakka afrakstur samstarfsins, nýja tegund af virknidrykknum Collab. Að sjálfsögðu tók Bríet lagið í partíinu með hljómsveit.
„Já, Collab er vinur minn. Ég fékk að hanna allt frá bragði yfir í útliti á dós,“ segir Bríet og kveðst vera hæstánægð með útkomuna. „Ég er búin að fara alltof margar ferðir upp í Ölgerð að smakka regnboga og sjó og ég held að útkoman sé fullkomin. Drykkurinn smakkast eins og ég, mjúk og mild,“ segir hún en þessi nýi Collab-drykkur er væntanlegur í búðir á morgun og ku aðeins vera framleiddur í takmörkuðu upplagi.
Davíð Sigurðsson, vörumerkjastjóri Collab, er ánægður með útkomuna og segir að gaman hafi verið að fagna með Bríeti í kvöld. „Samstarfið við Bríeti hefur verið mjög gefandi og skemmtilegt og forréttindi að fá hana með í svona sköpunarferli. Hún hafði bæði miklar skoðanir á bragðeiginleikum og hönnun og óhætt að segja að við séum gríðarlega ánægð með niðurstöðuna á hvoru tveggja. Það var alveg ljóst frá upphafi að þetta yrði einstakur drykkur og eftir langt þróunarferli með bragð enduðum við á blöndu af hampi, nektarínu og sítrónu – eitthvað sem aldrei hefur sést áður held ég, nokkurs staðar.“
Upphaf samstarfsins má rekja rúm tvö ár aftur í tímann að sögn Davíðs. Þá var hugmyndin að hún myndi flytja lag og gera myndband. „Ég held að ég hafi þurft að hryggja svona 200 manns með því að geta ekki sent þeim „Collab-lagið“, sem er þá útgáfa Bríetar á laginu Horfðu til himins, sem hún tók upp fyrir okkur, þar sem lagið hefur því miður aldrei komið opinberlega út. Vonandi er þessi BRÍET X COLLAB-útgáfa huggun harmi gegn fyrir þetta fólk.“