Bandaríska leikkonan Bijou Phillips hefur sótt um skilnað frá eiginmanni sínum, leikaranum Danny Masterson. Leikarinn var nýverið dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að nauðga tveimur konum snemma á þessari öld.
Samkvæmt dómsskjölum sem Phillips lagði fram á mánudag kemur fram að ástæða skilnaðar sé óásættanlegur ágreiningur og að leikkonan fari fram á fullt forræði yfir níu ára gamalli dóttur hjónanna.
Phillips og Masterson voru gift í tæplega 12 ár, en þau gengu í hjónaband í október 2011.
Phillips var við hlið eiginmanns síns í gegnum réttarhöldin og var viðstödd dómsuppkvaðningu fyrr í þessum mánuði. Heimildarmaður People hafði eftir Phillips aðeins nýverið að hún hygðist ekki ætla að skilja við eiginmann sinn þar sem hún trúði á sakleysi hans og elskaði eiginmann sinn.
Masterson, sem er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk í That 70’s Show, var dæmdur fyrir að nauðga tveimur konum á heimili sínu í Hollywood Hills árin 2001 og 2003.
Hann var einnig kærður fyrir að nauðga einni annarri konu en kviðdómurinn taldi að ekki væri hægt að sanna það með nógu góðum sönnunargögnum.