Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, afhenti franska kvikmyndaleikstjóranum Luc Jacquet Græna lundann, umhverfisverðlaun kvikmyndahátíðar Reykjavíkur, við athöfn í Ráðhúsinu í gær.
Jacquet hlaut lundann fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar og umhverfismála en hann hlaut meðal annars Óskarsverðlaun árið 2006 fyrir heimildarmyndina Ferðalag keisaramörgæsanna (March of the Penguins), sem hlaut mikið lof gagnrýnenda.
RIFF sýnir í Háskólabíó tvær myndir eftir Luc, annars vegar Segulmögnuðu heimsálfuna (Antarctica calling) og Ferðalag keisaramörgæsanna.
Samhliða verðlaunaafhendingunni fór fram málþing um mikilvægi kvikmynda er fjalla um umhverfismál og líffræðilegan fjölbreytileika. Málþingið, sem var opið almenningi, var skipulagt af RIFF í samstarfi við BIODICE, samstarfsvettvang um líffræðilega fjölbreytni.
Stjórnandi málþingsins var Sverrir Norland rithöfundur og á meðal þátttakenda var Andri Snær Magnason rithöfundur.