Ari Bragi lætur drauminn rætast í Köben

Tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason lætur langþráðan draum sinn rætast og …
Tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason lætur langþráðan draum sinn rætast og gefur út sína fyrstu plötu.

Nýverið ákvað tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason að láta langþráðan draum rætast og gefa út sína fyrstu plötu undir listamannanafninu ARI. Plötuna kallar hann „1“ og inniheldur hún sex heimsþekkt lög eftir tónlistarfólk á borð við Phil Collins, Toto, Fleetwood Mac og Norah Jones í útsetningu Ara Braga. Þegar hafa tvö lög af plötunni verið gefin út, Ordinary World og I'll Be Over You.

Ari Bragi hefur starfað sem tónlistarmaður frá því hann útskrifaðist frá New School for Jazz and Contemporary Music í New York-borg árið 2013. Hann er nú búsettur í Kaupmannahöfn ásamt unnustu sinni Dórótheu Jóhannesdóttur og dóttur þeirra Ellen Ingu Aradóttur. Fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í borginni og í dag spilar Ari Bragi með fremstu jazztónlistarmönnum Danmerkur.

„Dóróthea skráði sig í meistaranám og ég fylgdi með, en ég ætlaði bara að sjá hvernig Danirnir væru og hvort það væri eitthvað fyrir mig að gera þar. Ég var svo heppinn að það þurfti trompetleikara til þess að stökkva með litlum fyrirvara inn í verkefni með Danish Radio Big Band og hringdu þeir í mig nokkrum dögum eftir að við lentum í Köben,“ útskýrir Ari Bragi.

„Það var gríðarlega góður stökkpallur fyrir mig til að kynnast tónlistarsenunni hér enda er Danish Radio Big Band einhverskonar landslið þeirra Dana í rytmískri tónlist. Eftir að hafa unnið þó nokkuð með þeim síðustu tvö ár gerðist það svo fyrr á þessu ári að bandið bauð mér starfssamning og starfa ég nú með þeim,“ bætir hann við.

Ellen Inga, Dóróthea og Ari Bragi kunna vel við sig …
Ellen Inga, Dóróthea og Ari Bragi kunna vel við sig í Kaupmannahöfn.

„Í raun aðeins of stór kökubiti oft á tíðum“

Á plötunni „1“ tekur Ari Bragi upp heimsþekkt lög í eigin útsetningu og stækkar hljóðmyndina í þá stærð sem hann sjálfur vill heyra lögin flutt í. „Ég er með 16 manna strengjasveit með mér sem er áberandi partur af hljóðmyndinni, en ég fékk hjálp frá tveimur frábærum íslenskum útsetjurum og tónlistarmönnum sem hafa mikla reynslu í svona vinnu,“ segir hann og þakkar þeim Veigari Margeirssyni og Óskari Einarssyni innilega fyrir aðstoðina.

„Veigar var mér til halds og traust í undirbúningi á ferlinu, en ég veit ekki hvað ég hringdi oft í hann til þess að fiska upp úr honum spurningar með hitt og þetta. Rétt fyrir upptökurnar var ég svo að falla á tíma með að skrifa strengjaútsetningarnar sjálfur, en þá hafði ég samband við Óskar sem ég hef alltaf litið upp til hvað varðar smekk og þessa hárfínu blöndu af jazz, popp og klassík,“ bætir hann við.

Ari Bragi segir ferlið við gerð plötunnar hafa verið afar …
Ari Bragi segir ferlið við gerð plötunnar hafa verið afar lædrómsríkt.

„Þetta hefur gífurlega lærdómsríkt ferli og í raun aðeins of stór kökubiti oft á tíðum en svakalega góður skóli að fara í gegnum. Ég vissi að tónlistin stæði algjörlega undir sér en eftirfylgnin að loka þessu og koma þessu út hefur komið mér að óvart í ljósi þess hversu mikinn tíma þetta tekur. Ég geri þetta öðruvísi næst!

Þetta er mín fyrsta plata með þessu fyrirkomulagi sem ég sé fyrir mér að fara með lengra á næstu árum. Planið er að stækka lagaskrána og gera hana það stóra að vonandi væri hægt að spila þetta efni opinberlega. Sjáum hvernig það verður að fara með 16 manna strengjasveit „on the road“,“ segir Ari Bragi.

Ólst upp á miklu tónlistarheimili

Ari Bragi ólst upp á Seltjarnarnesi og í Vesturbæ Reykjavíkur á miklu tónlistarheimili en faðir hans starfar sem tónlistarkennari. „Ég hafði alltaf mikinn áhuga og opin eyru fyrir tónlist en ekki mikinn tíma til að æfa mig eða verða betri, það voru önnur áhugamál sem höfðuðu meira til mín eins og boltaíþróttir og félagslíf,“ segir hann.

„Ég valdi að læra á trompet og var svo heppinn að fá kennara sem hafði svo mikil áhrif á mig. Mig langaði til þess að bæta mig og gera hluti á hljóðfærið sem voru kannski ekki eðlilegir fyrir 12 ára gamlan strák að vilja gera,“ bætir hann við.

Í fyrstu segist Ari Bragi hafa farið nokkuð leynt með áhuga sinn á hljóðfærinu, en fljótlega hafi trompetið orðið stór partur af hans karakter. „Það eina sem ég hlustaði á voru trompetleikarar og „instrumental“ tónlist. Fyrsta tónlistarástin mín var latin-jazz tónlist og þá sérstaklega trompetleikarinn Arturo Sandoval. Þráhyggja mín fyrir honum fór ekki framhjá neinum í fjölskyldunni, enda var ekkert annað spilað á heimilinu í mörg ár,“ rifjar hann upp.

„Á endanum var það sameiginleg jólagjöf frá öllum í fjölskyldunni þegar ég var 14 ára að fara á tónleika með honum í Arizona í Bandaríkjunum og ég fékk að hitta hann baksviðs. Það var ekki aftur snúið eftir það,“ bætir hann við.

Trompetið varð fljótt stór partur af karakter Ara Braga.
Trompetið varð fljótt stór partur af karakter Ara Braga.

Ákveðin pressa að vera „Bjartasta vonin“

Ari Bragi var ungur þegar hann byrjaði að upplifa sjálfan sig sem tónlistarmann, en þegar hann lítur til baka segir hann sumar af stærstu upplifunum tónlistarferilsins hafa verið þær fyrstu. „Þær voru mjög mótandi í þá átt sem ég átti eftir að verða. Í raun gæti ég leift mér að segja að upplifunin við stórum hlutum í mínum eigin tónlistarferli séu ekki jafn stórar og þegar ég fór ungur á tónleika eða sá einhverjar upptökur sem létu hökuna á mér falla niður í gólf,“ útskýrir hann.

„Auðvitað eru toppar á mínum eigin ferli sem er gaman …
„Auðvitað eru toppar á mínum eigin ferli sem er gaman að rifja upp.“

Það hefur verið langþráður draumur hjá Ara Braga að gefa út eigin plötu, en hann segir þann draum ekkert endilega hafa verið góðan á ákveðnum tíma. „Ég velti því fyrir mér fram og til baka hvernig plötu ég skildi gera, hvað væri mín hilla, mín rödd og mitt framlag. Árið 2011 þegar ég var í námi í Bandaríkjunum vann ég verðlaun á íslensku tónlistarverðlaununum í flokknum „Bjartasta vonin“ og þá fann ég þessa pressu myndast hjá mér og frá öðrum um hvað ég ætlaði að gera,“ segir hann.

„Ég prufaði að fara aðeins framhjá þessari pressu með því að stofna nokkrar hljómsveitir til þess að fá að prufa hugmyndir og þreifa fyrir mér á nokkrum öngum tónlistarsenunnar. Eftir að ég byrjaði að útsetja meira af tónlist fyrir allskonar tilefni, bæði fyrir pop-verkefni og stærri hljómsveitir, byrjaði ég að átta mig á því að það lá vel við fyrir mig að koma hugmyndum mínum á blað og naut þess oftast að heyra þetta verða að veruleika. Það er gaman að líta aðeins til baka og sjá að þetta var auðvitað allt partur af undirbúning fyrir mitt eigið verkefni,“ bætir hann við.

Varð strax hrifinn af danska jazzheiminum

Ari Bragi kann vel við danska jazzheiminn og segir Dani alltaf hafa verið mikla tónlistarþjóð og lagt mikið upp úr lifandi tónlist. „Allar þessar stofnanir eins og tónlistarskólarnir, hljómsveitir og útvarpshljómsveitir sem eru til staðar hér fyrir listafólk til að láta að sér kveða eru svo rótgrónar inn í danska samfélagið. Fólkið í landinu er svo stolt af þessum stofnunum og hvað þær gefa mikið út í samfélagið á listrænan og auðgandi hátt,“ segir hann.

„Á seinni hluta síðustu aldar áttu margar af stórstjörnum amerísku jazzsenunnar eftir að flytja til Kaupmannahafnar og eiga þar sín síðustu ár vegna þess hve vel þeim fannst Danir taka á móti þeim. Kirkjugarðarnir í Kaupmannahöfn geyma nokkur af stærstu nöfnum ameríska jazzins, sem verður að þykja nokkuð merkilegt,“ bætir hann við.

Ari Bragi kann vel við sig í danska jazzheiminum.
Ari Bragi kann vel við sig í danska jazzheiminum.

Krefjandi að samtvinna ferilinn og fjölskyldulífið

Spurður hvernig hafi gengið að tvinna saman tónlistarferilinn og fjölskyldulífið viðurkennir Ari Bragi að það hafi verið nokkuð krefjandi.

„Það er erfitt að vera alltaf í burtu að vinna þegar aðrir sem vinna „venjulega vinnu“ eiga frí. Ég hef verið að átta mig meira og meira á því lífi sem felst í því að vera sjálfstætt starfandi, en þetta er mikið álag á konuna mína að vera svona mikið ein í Kaupmannahöfn og hafa ekki fjölskyldu og vini sem bakland um helgar og í hversdagsleikanum,“ segir hann.

Ari Bragi ásamt dóttur sinni í veðurblíðunni í Köben.
Ari Bragi ásamt dóttur sinni í veðurblíðunni í Köben.

„Dóróthea hefur verið skipstjórinn og haldið bátnum á réttri braut ef svo mætti segja á meðan ég er úti á þilfari að draga fiskinn inn. Við höfum verið saman í að verða 10 ár núna þannig að hún veit nokkuð vel að hverju hún er að ganga þegar það kemur að minni vinnu, en það breytir því ekki að þetta er mikið álag fyrir hana. Ég vildi auðvitað óska þess að ég væri meira heima um helgar en þetta er bara spurning um að vera saman í liði og finna jafnvægi. Þetta fyrirkomulag fer þó að breytast í ljósi þess að nú er ég kominn með fastráðningu,“ útskýrir hann.

Fjölskyldan saman.
Fjölskyldan saman.

Ástin fyrir tónlistinni það mikilvægasta

Ari Bragi á óneitanlega glæstan tónlistarferil að baki, en þegar hann horfir til baka segir hann ástina fyrir tónlistinni vera það sem hafi komið honum á þann stað sem hann er á í dag. „Hungrið til þess að læra og verða betri hljóðfæraleikari. Þetta er ferli sem tekur aldrei enda og er eitthvað sem ég hugsa um þegar ég vakna og þegar ég fer að sofa,“ segir hann.

Að lokum er Ari Bragi spurður hvort hann sé með einhver ráð fyrir ungt og upprennandi tónlistarfólk. „Það er hægt að segja svo margar klisjur hérna sem þýða ekki neitt. Eina sem ég get sagt er að ef þig langar eitthvað meira en allt annað, þá skaltu ganga taktfast í þá átt því sú ganga gefur svo margt. Ég hef stundum gengið aðeins útaf þeirri leið en fundið mig svo aftur á stígnum og þar líður mér best.“

Ari Bragi hvetur fólk til að elta drauma sína.
Ari Bragi hvetur fólk til að elta drauma sína.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar