Haraldur Þorleifsson eigandi kaffihússins Önnu Jónu biðst afsökunar á að hafa kallað í þekkta karla til að fá þá til að vinna á morgun þegar kvennaverkfall fer fram.
„Á morgun, þriðjudaginn 24.október er Kvennaverkfall. Dagur þar sem konur leggja niður öll störf til að sýna með beinum hætti hvað framlag þeirra í samfélaginu er mikilvægt. Þar sem þær minna m.a. á að kynbundið ofbeldi er miklu algengara en mörg okkar gera okkur grein fyrir og að kvennastörf, launuð og ólaunuð, eru mjög vanmetin af samfélaginu.
Konur, þeirra upplifun, þeirra samstaða og þeirra verkfall er og á að vera aðalatriðið á þessum degi. — Á morgun verða mikið af konum í bænum. Sem eigandi veitingastaðar í miðbænum, sem er fyrst og fremst búinn til fyrir konur, þá vildi ég búa til stað þar sem þær getu verið saman. Með þessu gerði ég það sem karlar eins og ég gera alltof oft og vildi reyna að vera með — í staðinn fyrir að gefa konum allt plássið eins og þær eiga skilið. Ég hef í dag talað við mörg og heyrt að mörgum fannst það vera mjög óviðeigandi að karlar eins og ég fengju mikla athygli á degi sem á að snúast um mismunun og ofbeldi gegn konum. Ég er algjörlega sammála því. — Minn reynsluheimur, og reynsluheimur karla, er allt annar en kvenna.
Þegar mér var í dag sagt af konum sem ég ber ómælda virðingu fyrir, að ég sé ekki að hjálpa, heldur þvert á móti, þá sá ég það sem ég átti að sjálfsögðu að sjá fyrr. Mér þykir mjög leitt að þessi viðburður á morgun á Önnu Jónu hafi dregið athygli frá því sem skiptir raunverulega máli á þessum degi.
Við verðum með opið á morgun og munum gera okkar besta við að þjóna þeim konum og kvárum sem koma til okkar en gestaþjónarnir verða hinsvegar ekki með okkur. Það er ekki hlutverk kvenna að kenna körlum eins og mér hvernig á að haga sér. En ég er samt sem áður ótrúlega þakklátur þeim sem hafa í dag talað hreinskilið um þetta mál. Ég býst við því að einhver munu hrósa mér fyrir að sjá að mér. Það væri algjörlega rangur útgangspunktur og myndi aftur setja athyglina á rangan stað. Þau sem eiga allt hrós skilið eru þær konur og kvár sem hafa vakið mig, og okkur öll, til enn frekari vitundar um þessi risastóru og mikilvægu mál. Ég gerði mistök,“ segir Haraldur Þorleifsson í yfirlýsingu sem hann sendi á mbl.is.