Hrekkjavökudrottningin Heidi Klum er þekkt fyrir að fara alla leið á hrekkjavökunni, en í gær klæddi hún sig upp sem gríðarstór páfugl í árlegu hrekkjavökuteiti sem hún heldur fyrir ríka og fræga fólkið í New York-borg.
Á síðasta ári setti Klum internetið á hliðina þegar hún klæddi sig upp sem ánamaðkur, en það tók hana um tíu tíma að gera sig tilbúna með hjálp fjölda aðstoðamanna.
Þótt Klum tjaldi vanalega öllu til á hrekkjavökunni er óhætt að segja að búningurinn í ár skeri sig úr að því leyti að hann samanstóð af Klum sjálfri ásamt tíu öðrum einstaklingum, en saman mynduðu þau gríðarstóran páfugl.
Klum var andlit og búkur páfuglsins á meðan tíu einstaklingar úr hinum vinsæla Cirque du Soleil mynduðu fjaðrir og fætur fuglsins. Þá mætti eiginmaður Klum, Tom Kaulitz, sem páfuglaegg.