Söngkonan Cassie hefur höfðað mál gegn rapparanum Sean Combs þar sem hún sakar hann um nauðgun og líkamlegt ofbeldi.
Cassie, sem heitir réttu nafni Casandra Ventura, segist hafa verið föst í vítahring ofbeldis og eiturlyfja í rúman áratug með Combs.
Söngkonan sakar Combs um nauðgun árið 2018 en hún höfðaði málið á Manhattan í New York.
Fram kemur að hún hitti Combs, sem er einnig þekktur sem Puff Daddy eða Diddy, árið 2005 þegar hún var 19 ára og hann 37.
Hún gerði samning við útgáfufyrirtæki hans, Bad Boy Records, og sló í gegn með lögum á borð við Me & U.
Á svipuðum tíma hófu þau ástarsamband.
Í dómsskjölum lýsir Cassie hröðum lífsstíl með Combs uppfullum af eiturlyfjaneyslu. Hún segir rapparann „andstyggilegan, grimman og stjórnsaman mann” sem hafi beitt hana valdi, bæði sem yfirmaður hennar og einn áhrifamesti náunginn í hip-hop-tónlistarbransanum.
Lögmaður Combs, Ben Brafman, hefur vísað ásökunum harðlega á bug og segir þær „meiðandi og út í hött”.