Danska konungsfjölskyldan hefur rofið þögn sína vegna sögusagna um meint framhjáhald Friðriks krónprins Danmerkur. Friðrik hefur verið giftur Mary krónprinsessu í 19 ár og eiga þau fjögur börn saman.
Í síðustu viku birti spænska slúðurblaðið Hola! myndir af Friðriki ásamt Genevieve Casonova og hélt því fram að þau hefðu átt í ástarævintýri í Madríd á Spáni. Í kjölfarið sendi Casanova frá sér tilkynningu þar sem hún neitaði orðróminum staðfastlega og hefur hótað að kæra tímaritið.
Danska konungsfjölskyldan hefur nú sent frá sér stutta yfirlýsingu um málið til danska miðilsins B.T. þar sem þau segjast „ekki tjá sig um sögusagnir eða aðdróttanir“. Hvorki Friðrik né Mary hafa tjáð sig um ásakanirnar persónulega.