Leikkonan Aldís Amah Hamilton fer ekki leynt með það hver á afmæli í dag. Sambýlismaður hennar, leikarinn Kolbeinn Arnbjörnsson, fagnar fertugsafmæli sínu í dag og birti leikkonan langa færslu á Instagram til heiðurs afmælisbarninu.
Aldís og Kolbeinn kynntust við tökur á þáttunum Svörtum söndum sem sýndir voru á Stöð 2 í byrjun síðasta árs.
„STÓRAFMÆLI!!! Setjið allt á pásu.
Kolbeinn Arnbjörnsson, KrolluKolli, Krollmundur, Kolbrador, Kolli Kolvetni, Kynþokkolli, Kolbster og auðvitað Kafteinn Kolbeinn fagnar fjórum tugum í dag.
Ég fagna því að ljós hans hefur núna fengið að skína í 40 ár og að flesta daga fæ ég að baða mig í því. Kolbeinn er ekki sparsamur á hlýjuna sem útgeislunin hans veitir og fyrir konu sem kemur örugglega af eðlufólki miðað við líkamshita, er það einn af hans helstu kostum. Það sem gerir hann enn betri er að kostir hans eru svo margir að helst ætti hann að heita Kosta-Kolli.
Kolbeinn er með stærsta hjarta sem ég hef hitt á minni lífsleið. Samkennd hans og siðferði jafnast ekki á við neinn sem ég þekki. Staðfesta hans og trú á það sem hann stendur fyrir er mér daglegur innblástur og þegar að ég hef skrapað botninn í trúleysi og andlegri uppgjöf tekst honum alltaf að finna til einhverja ótrúlega auka orku og ást til að gefa mér, þrátt fyrir að hafa nóg á sinni könnu.
Kolbeinn er verndari, heilari, skapari og fallegasta sál sem ég veit um. Ég elska hann meira en ég hef nokkurn tímann elskað og vona að flest ykkar fái að njóta ljómans sem af honum skín.
Til hamingju með afmælið ástin mín. Takk fyrir að búa til ógleymanlegar minningar saman hérlendis og erlendis og allstaðar þar á milli.“