Óskarsverðlaunaleikarinn Jamie Foxx hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni og misnotkun. Atvikið á að hafa átt sér stað á veitingastað í miðborg New York árið 2015. Slúðurvefurinn TMZ greindi fyrst frá ásökunum.
Samkvæmt málsskjölum var Foxx á veitingastaðnum Catch NYC & Roof í ágúst 2015 þegar ónefnd kona mætti á staðinn ásamt vinum. Hún sat einu borði frá leikaranum og á að hafa beðið um mynd af sér með Foxx, sem hann víst samþykkti. Í málsskjölum kemur einnig fram að leikarinn hafi virst mjög ölvaður.
Konan sakar Foxx meðal annars um óviðeigandi snertingu og athugasemdir. Hún hefur stefnt leikaranum og veitingastaðnum.