Rakel Pálsdóttir og Kjalar Martinsson sendu í dag frá sér glænýtt jólalag sem ber heitið Kósíkvöld í des. Rakel og Kjalar hófu bæði tónlistarferil sinn í söngvakeppnum, Rakel í Söngvakeppni Samfés árið 2004 og Kjalar í Idolinu, en nú hafa þau sameinað krafta sína í hátíðlegum dúett.
„Ég myndi segja að þetta sé akkúrat lagið sem kemur þér í jólaskap og jafnvel út á dansgólfið,“ segir Rakel um lagið.
Lagið samdi Gunnar Ingi Guðmundsson lagahöfundur og er textinn eftir Gústaf Lillendahl. „Lagið varð til þegar ég var að gramsa í „voice memo“ forritinu í símanum mínum og fann lítinn lagabút sem mér fannst nokkuð góður og grípandi. Ég man ekkert nákvæmlega hvernig þessi lagabútur varð til en mjög sennilega var það við eitthvað fikt á gítarinn eða píanóið,“ segir Gunnar Ingi.
„Ég ákvað að halda áfram með að reyna að fullklára lagið sem tók nokkra stund, enda voru sumir kaflar erfiðari en aðrir hvað lagasmíðina varðar. Ég fór svo í það að gera prufu upptöku og þegar ég var komin með fyrsta uppkast af laginu sendi ég það á Rakel og Kjalars til hlustunar og voru þau strax til í þetta. Eftir það sendi ég lagið á Gústaf Lillendahl, en eftir að hafa kastað hugmyndum fram og til baka um hvað textinn ætti að fjalla um var útkoman kósíkvöld í des og textinn saminn í kringum það þema,“ bætir hann við.
Gunnari langaði að útfæra lagið í nútímalegum 80's stíl, en hann segir upptökuferlið hafa gengið vonum framar og að hann sé afar sáttur við útkomuna. „Lagið er fjörugt og sykursætt, en þessi 80's hljóðheimur í laginu rammar tónlistina inn á mjög sjarmerandi máta,“ útskýrir hann.
Gústaf segir texta lagsins fjalla um þá tilhneigingu að á jólunum hættir fólki til að einblína á hluti sem skipta í raun engu máli.
„Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það samveran og augnablikin sem skipta mestu máli. Það er mikilvægt að taka öll þessi litlu augnablik sem gerast á aðventunni og gefa þeim meira rými í staðinn fyrir stressið og álagið sem við eigum það til að gefa of mikið pláss í tilverunni. Það má því segja að Kósíkvöld í des sé einhverskonar jóla-núvitundar-hugvekja sem minnir okkur á hvað það er sem skiptir máli í amstri dagsins,“ segir hann.