Nemendur Listdansskóla Íslands stíga á svið Borgarleikhússins sunnudaginn 26. nóvember með uppfærslu af hinu klassíska jólaverki, Hnotubrjótnum, en það er jólasýning skólans í ár. Hnotubrjóturinn er einn vinsælasti ballett allra tíma og ómissandi hluti af jóladagskrá margra.
Óteljandi uppfærslur hafa verið gerðar af Hnotubrjótnum, klassískar og samtímalegar, en Elizabeth Greasley, skólastjóri Listdansskóla Íslands, segir nemendur, kennara og aðstandendur skólans hlakka til að flytja þeirra útgáfu af verkinu fyrir áhorfendur á sunnudag.
Hin breska Elizabeth Greasley, kölluð Dilly, var ráðin skólastjóri Listdansskóla Íslands fyrr á þessu ári og hefur háleit markmið um að koma skólanum í hæsta gæðaflokk eftir erfið ár, en skólanum var bjargað frá gjaldþroti síðastliðið vor.
Elizabeth var atvinnuballerína um árabil, dansaði með English National Ballet og Cecilia Marta Dance, og miðlar nú reynslu sinni áleiðis til nemenda skólans ásamt því að vinna að eflingu hans.
„Við höfum unnið hörðum höndum að því að ná utan um þetta mikla verk og það hefur gengið vonum framar. Ég hef lagt sérstaka áherslu á fjölbreytni, fjölhæfni og sköpunarkraft á þessari önn og mun ballettinn sýna það,“ segir Elizabeth, en nemendur skólans munu dansa Hnotubrjótinn með nokkrum ólíkum dansstílum, það er klassískum ballett, djass- og nútímadansi.
„Þetta er svo sannarlega ný áskorun, en við erum mjög spennt að sjá nemendur okkar takast á við Hnotubrjótinn á þennan nýjan máta,“ segir hún.
Hnotubrjóturinn segir frá Drosselmeyer, sem er göldróttur úra- og dúkkusmiður. Frænda hans hefur verið breytt í hnotubrjót af Músadrottningunni. Til að losna úr álögunum, verður Hnotubrjóturinn að drepa Músakónginn og ung stúlka verður að verða ástfangin af honum.