Tenging mannsins við náttúruna, sorgin við að missa ömmu sína og tónlist Önnu Þorvaldsdóttur var innblástur Sigríðar Ástu Olgeirsdóttur að verkinu Hulið, sem vann til Baltic Nordic Fringe Network, verðlauna á Reykjavík Fringe hátíðinni í sumar.
Sigríður Ásta Olgeirsdóttir ólst upp í Borgarnesi þar sem hún varði miklum tíma með ömmu sinni. Hún lýsir ömmu sinni sem andlega þenkjandi og næmri konu, sem kenndi henni að hlusta á og tengjast náttúrunni.
„Amma talaði um álfa og huldufólk eins og raunverulegar manneskjur og notaði það í raun og veru sem tengingu mannsins við náttúruna. Að náttúran sé lifandi og þannig persónugerði hún náttúruna fyrir okkur sem börnum,“ segir Sigríður áður en hún lýsir hugmyndum ömmu sinnar nánar fyrir blaðamanni.
„Það bjuggu tröll í fjöllunum, þá eru tröllin fjöllin, og allskonar blómálfar líka. Hún kenndi okkur að þekkja landslagið og náttúruna í gegnum allskonar verur.“
Verkið Hulið er persónulega saga Sigríðar um manneskju sem fæðist inn í fjölskyldu þar sem konurnar eru næmar, en hún finnur ekkert sjálf. Smátt og smátt byrjar hún síðan að finna sína tengingu. Það fjallar um ömmuna sem kenndi Sigríði að tengjast náttúrunni en jafnframt um sorgina sem fylgir því að missa náin ástvin.
Þá kemur Sigríður einnig inn á reiðina sem hún upplifði þegar amma hennar dó.
„Hvers vegna kom hún ekki til mín til að spjalla við mig fyrst hún var svona næm?“ spyr Sigríður sem fann að hún var reið út í ömmu sína fyrir að hafa ekki komið til sín og látið vita af sér. Hún segist þó hafa náð að vinna úr sorginni og reiðinni í gegnum verkið.
Verkið er einleikur í leikstjórn Halldóru Rósu Björnsdóttur.
Sigríður sótti mikinn innblástur í element ömmu sinnar og segir verkið eins konar óð til náttúrunnar í gegnum ömmur. Ekki einungis ömmu hennar, heldur allar ömmur, segir Sigríður og nefnir að margir þeirra sem hafi séð sýninguna, hafi fundið fyrir mikilli tengingu við ömmur sínar.
Þessi amma Sigríðar, sem verkið byggir á, er jafnframt amma Önnu S. Þorvaldsdóttur tónskálds, sem hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín. Sigríður segir ekkert annað hafa komið til greina en að nota tónverk eftir Önnu sem hljóðheim verksins.
„Við eigum sömu ömmu og ólumst báðar upp í sama bænum, undir sama fjallinu [Hafnarfjalli], við sama hafið. Ég átti einu sinni samtal við hana og þá vorum við einmitt að tala um ömmu Siggu, sem verkið byggir á, og þá var Anna einmitt að segja að amma væri svo mikill innblástur, og þegar ég hlusta á tónlistina hennar Önnu þá finn ég svo mikið fyrir þessari tenginu sem við höfum við ömmu.“
Sigríður segir trú á hið yfirnáttúrulega mjög sterka í þjóðararfi Íslendinga, hins vegar hafi sú trú orðið eilítið tabú í gegnum tíðina. Því langaði Sigríði til þess að opna aftur á umræðuna og sýna að engin ástæða sé til þess að skammast sín fyrir að trúa á álfa, huldufólk eða andlegar víddir.
„Við þurfum ekki að skammast okkur fyrir að trúa á álfa, huldufólk eða eitthvað andlegt, það er bara partur af okkur og kannski partur af því sem að ömmur okkur kenndu okkur og gáfu okkur.“
Þegar amma Sigríðar var á dánarbeðinum fór Sigríður ásamt fjölskyldu sinni að heimsækja hana, að hún hélt í hinsta sinn. Daginn eftir komu þau aftur og þá sagði amma hennar, sem enn var á lífi, að „rútan hefði verið orðin full,“ því hafi hún ekki komist í sumarlandið. Sigríður segir þetta hafa verið mjög lýsandi fyrir ömmu sína.
Verkið var frumsýnt í Tjarnabíó í byrjun júní, við góðar undirtektir. Í sumar var Sigríður síðan með sýningu á Reykjavík Fringe festival þar sem verkið vann til Baltic Nordic Fringe Network, verðlaunanna.
Verðlaunin opnuðu dyr Sigríðar með sýninguna út í heim á aðrar Fringe hátíðir. Hún fór til að mynda með sýninguna til Svíþjóðar í sumar og stefnir á sýningarferðalag með verkið út í heim næsta sumar.
Þar sem mikil aðsókn var á sýninguna í vor ákvað Sigríður að bjóða upp á aukasýningar í Tjarnabíó dagana 6. og 10. desember og síðan aftur 14. janúar.
„Ég er rosa spennt að taka hana upp aftur. Mig langar að leyfa henni að þróast aðeins og gefa henni meira líf. Af því að eftir því sem maður sýnir sýningar meira, þá lifna þær við innra með manni. Nú er liðinn smá tími, verða kannski smá breytingar, kannski bætum við einhverjum stuttum senum við,“ segir Sigríður full eftirvæntingar eftir því að stíga aftur á sviðið í Tjarnabíó.