Leikkonan og uppistandarinn, Tiffany Haddish, gerði góðlátlegt grín að eigin handtöku aðeins örfáum klukkustundum eftir að hún var handtekin grunuð um ölvunarakstur. Haddish hafði verið að skemmta á Laugh Factory í Los Angeles, en það er þekkt hefð hjá leikkonunni að koma fram á staðnum yfir þakkargjörðarhátíðina.
Haddish fékk spurningu úr sal eftir að fréttir bárust af handtökunni, en forvitinn áhorfandi vildi ólmur vita hvað hefði gerst. Leikkonan sagði þá: „Sko, ég var búin að biðja Guð um að senda mér mann með vinnu, góðan starfsferil og helst einhvern í einkennisbúning og hann svaraði bænum mínum,“ en þar átti Haddish við lögregluþjóninn. Áhorfendur náðu upptöku af svarinu sem fór fljótt í dreifingu á netheimum.
Á aðfaranótt föstudags barst lögreglu tilkynning um bíl á Beverly Drive sem lokaði fyrir umferð, en samkvæmt erlendum miðlum þá var leikkonan hálfsofandi á stýrinu en bíllinn í gangi. Haddish var grunuð um sama brot í Atlanta á síðasta ári.