Mikil umfjöllun hefur verið í erlendum fjölmiðlum um nýjasta lag Bjarkar „Oral“ en allur ágóði þess rennur til sjálfeignarstofnunarinnar AEGIS til að berjast gegn opnu sjókvíaeldi á Íslandi. Katalónska söngkonan Rosalía syngur ásamt Björk en þetta er fyrsta samstarfsverkefni þeirra.
Gagnrýnendur hafa verið jákvæðir gagnvart laginu sem hefur farið líkt og eldur í sinu um netheima, en það er með vinsælustu lögum á Youtube um þessar mundir. „Oral“ var valið besta nýja lagið af Pitchfork, en Matthew Ismael Ruiz, gagnrýnandi vefmiðilsins fór fögrum orðum um það í gagnrýni sinni og sagði lagið „ljóma af eldmóði æskunnar, textann geisla af sjálfsmeðvitund en líka óbeislaðri bjartsýni.“ Pitchfork komst að þeirri niðurstöðu „að þegar á heildina er litið, bæði sögu lagsins og málstaðinn er „Oral“ tímaferðalangur sem horfir vonglöðum augum á framtíðina.“
Tímaritið Variety segir Bjarkar smáskífuna vera „hennar aðgengilegasta lag í langan tíma“ og Vogue telur „Oral“ vera „ómissandi viðbót í kanónu beggja listakvennanna, sem og talar fyrir mikilvægu málefni.“ Liam Hess, sem skrifar fyrir Vogue, segir einnig að „með smá hjálp frá Rosalíu—og grasrótar avant-popp pródúsernum Sega Bodega—hefur lagið umbreyst í munaðarfullan óð til líkamlegrar snertingar yfir glæsilegt landslag strengja, flautna og bíts innblásnu dancehall takti.“
Grein Vulture sem ber yfirsögnina „Björk og Rosalía samræma raddir sínar fyrir fiska“ endar á þessum orðum: „Streymið laginu vegna þess að þetta popptónlistarfólk er ekki einungis að stefna að því að enda sjókvíaeldi; samsöngur þeirra mun kæta þig.“ Og The Daily Beast segir „grípandi laglínuna ná fullkomlega utan um myndlíkinguna að vera með fiðrildi í maganum þegar maður er skotinn í einhverjum.“