Tónlistarkonan Bríet Ísis Elfar, ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar, sótti nýlega um skráningu á orð- og myndmerkinu BRÍET og hefur það nú verið valið vörumerki nóvembermánaðar af starfsfólki Hugverkastofunnar.
Bríet segir að það sé í raun eðlilegur og mikilvægur hluti af vinnu hennar sem tónlistarmanns að sækja um skráningu á vörumerki. Nafnið sé orðið að fyrirtæki og afgerandi vörumerki sem hún sé að byggja markvisst upp.
Það sé því mikilvægt að setja minningu um sig í ákveðið form sem fólk geti tengt við og viti að tákni hana, hún eigi og bara hún. Með skráningu sé hún líka að koma í veg fyrir að aðrir geti nýtt sér hennar nafn og vörumerki í eitthvað sem hún væri ekki sátt við.
Þorgeir Blöndal sá um að hanna merkið, en hann hefur séð um alla hönnun og grafík fyrir Bríeti undanfarin ár. Hugmyndin að merkinu kom upp í samtölum þeirra tveggja og Halldórs Karlssonar, þáverandi kærasta Bríetar.
Vörumerki mánaðarins er nýtt framtak hjá Hugverkastofunni. Markmiðið með því að velja eitt vörumerki til umfjöllunar í hverjum mánuði er að vekja athygli á mikilvægi vörumerkjaskráninga og kynna starfsemi Hugverkastofunnar.
Starfsfólk stofnunarinnar kýs vörumerki mánaðarins úr hópi nýrra og nýendurnýjaðra íslenskra vörumerkja sem standa fyrir íslenska vöru og/eða þjónustu.