Knattspyrnukonan Elísa Viðarsdóttir lenti í því leiðinlega atviki fyrir nokkrum vikum að reikningar hennar á Instagram og Facebook voru hakkaðir.
Eftir að hafa reynt að endurheimta aðganga sína í um átta vikur ákvað Elísa að stofna nýjan Instagram-reikning. Hún deildi færslu um atvikið.
„Ég var hökkuð! Eins og einhverjir hafa tekið eftir þá var ég hökkuð á Instagram og Facebook. Þetta hefur gengið yfir í um 8 vikur og mér hefur ekki ennþá tekist að endurheimta aðgangana mína.
Rúm 10 ár af minningum, vinnu og samskiptum tekin frá mér. Það virðist ekki nokkur leið að ná sambandi við manneskju hjá Meta og því ekki um auðugan garð að gresja í því að ná þessu til baka,“ segir Elísa í færslunni.
„Þessi 8 vikna útilokun hefur samt verið ótrúlega notaleg, minni skjátími: meiri vellíðan STAÐFEST! Ég veit ekki hvort ég muni nokkurn tímann endurheimta “gömlu” aðgangana mína aftur en fram að því þá er þetta nýja ég! Mér þætti afar vænt um að þið, mitt allra besta fólk gætuð dreift boðskapnum, það gæti sparað mér smá tíma í að leita ykkur uppi.
Læt fylgja með mynd úr módelskólanum sem ég hef verið að stunda síðastliðnar vikur í öllum frítímanum. ÁST Elísa,“ bætti hún við.