Hljómsveit Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, gaf frá sér nýtt lag í vikunni. Hljómsveitin heitir Fjöll og nýja lagið heitir Lengi lifir. Tónleikar eru í vændum hjá sveitinni.
Þetta er þriðja lagið sem hljómsveitin Fjöll sendir frá sér en hljómsveitin er alls ekki sú fyrsta sem Ragnar Þór spilar með. Ragnar Þór spilaði með hljómsveitunum Guði gleymdum og Los á tíunda áratug síðustu aldar.
Hljómsveitin er vel skipuð en ásamt Ragnari Þór eru þeir Guðmundur Freyr Jónsson gítarleikari í hljómsveitinni, Guðmundur Annas Árnason söngvari, Snorri Gunnarsson gítarleikari og Kristinn Jón Arnarson bassaleikari.
Þeir Guðmundur Annas, Snorri og Kristinn Jón hófu samstarf sitt í hljómsveitinni Soma á tíunda áratugnum og komu aftur saman árið 2021. Hægt er að sjá hljómsveitirnar tvær, Fjöll og Soma, spila á Ölveri þann 8. desember næstkomandi.