Vítalía Lazareva fagnaði 26 ára afmæli sínu í gær. Í tilefni dagsins birti hún tilfinningaþrungna færslu á Instagram.
„Í dag á ég 26.ára afmæli. Síðustu nokkur ár í lífi mínu hafa mótað mig að þeirri manneskju sem ég varð á þeim skömmu tíma. Ég veit að lífið er allskonar og eitt er ég viss um, að sjaldnast er lífið er flatt.
Ég er og verð ávallt þakklát foreldrum mínum fyrir að gefa mér þetta líf, því án þeirra væri ég hreinlega ekki til, í bókstaflegri merkingu orðins. Aldurinn hefur fært mér meiri ró og kennt mér að lífið mitt er mitt eigið til að klúðra því eða sigra það, ég hef misst nákomna fjölskyldumeðlimi, vini og óvini á þessum árum og lært að allir þar með talin ég geri það sem hentar hverju sinni, því jú við öll erum víst að eltast við að lifa lífinu okkar. Ég vil trúa því að mínar og annarra manna ákvarðanir eru aldrei áætlaðar til að valda hvort öðru skaða, stundum þurfum við að prufa að setja á okkur gleraugu náungans til að skilja hvort annað..,
Óskin mín þetta árið er hreinlega að fá að eldast,þroskast,nærast og fyrst og fremst að finna ástæðu til að brosa oftar,“ skrifaði hún við mynd af sér.
Það hefur ýmislegt gengið á síðustu ár hjá Vítalíu, en hún rataði fyrst í fjölmiðla þegar hún kom fram í hlaðvarpsþætti Eddu Falak, Eigin konur. Þar sagði hún frá því að hún hefði verið misnotuð af mönnum í heitum potti í sumarbústaði, en þangað mætti hún með þáverandi kærasta sínum, Arnari Grant einkaþjálfara.
Í framhaldinu kærði Vítalía mennina fyrir kynferðisbrot, en sú kæra var felld niður. Þá kærðu mennirnir Vítalíu fyrir meinta fjárkúgun, en sú kæra var einnig felld niður.