Stórmyndin Wonka, nýjasta kvikmyndin um hinn sérlundaða sælgætisframleiðanda Willy Wonka, var heimsfrumsýnd á þriðjudag. Frumsýningin var haldin í tónleikahúsinu Royal Festival Hall. Rauði dregillinn var stjörnum prýddur, en myndin skartar þeim Timotheé Chalamet, Hugh Grant og Oliviu Colman í aðalhlutverkum sem öll mættu í sínu fínasta pússi.
Er þetta þriðja stórmyndin um Willy Wonka, en fyrsta kvikmyndin, Willy Wonka & the Chocolate Factory, var gerð árið 1971 og skartaði Gene Wilder í hlutverki sælgætisframleiðandans. Árið 2005 var það Johnny Depp sem leiddi áhorfendur inn í töfraheim súkkulaðiverksmiðjunnar í Charlie and the Chocolate Factory. Í ár er það hinn ungi Chalamet sem stígur inn í hlutverk Wonka.