Að vera, eða ekki vera, þarna er nefið

​Bradley Cooper hefur heillast af hljómsveitarstjórn frá blautu barnsbeini.
​Bradley Cooper hefur heillast af hljómsveitarstjórn frá blautu barnsbeini. AFP/Jason Mendez

​Af fréttaflutningi heimspressunnar að dæma mætti ætla að nýja bíómyndin hans Bradleys Coopers, Maestro, fjallaði alfarið um nefið á bandaríska tónskáldinu og hljómsveitarstjóranum Leonard Bernstein.

Gervinef sem Cooper, sem sjálfur leikur Bernstein, skartar í myndinni hefur farið fyrir brjóstið á sumum og aursletturnar gengið yfir hann. Hefur Cooper verið sakaður um gyðingasmánun, gyðingafésun og þar fram eftir götunum. Svo langt gekk málið að förðunarmeistari Maestro sá ástæðu til að biðjast afsökunar, hefði verk hans sært fólk.

„Svona, svona,“ sögðu hins vegar börn Bernsteins og báðu fólk vinsamlegast að hætta að móðgast fyrir hönd látins föður síns og gyðinga yfirhöfuð. „Þannig vill til að Leonard Bernstein var með fallegt og stórt nef,“ sögðu þau í yfirlýsingu. „Bradley kaus að notast við förðun til að magna upp líkindin og frá okkar bæjardyrum séð er það í fínu lagi. Við erum líka sannfærð um að faðir okkar hefði ekki haft neitt á móti því heldur.“

Jæja, ég ætlaði ekki að verja mörgum dálksentimetrum undir þessa nefumræðu og við skulum láta hér staðar numið og líta frekar á kvikmyndina á bak við nefið.

Maestro á sér langan aðdranda. Í samtali við sjónvarpsþáttinn CBS Mornings kvaðst Cooper hafa verið heillaður af hljómsveitarstjórn frá blautu barnsbeini og nefndi þá félaga Tomma og Jenna sérstaklega í því samhengi, sem ku hafa verið duglegir að stíga á pall. Átta ára gamall bað hann svo jólasveininn um tónsprota. „Það er töfrum líkast, maður sveiflar bara sprotanum og hljóð heyrist, þið skiljið, þannig byrjaði þetta allt. Það var satt best að segja eitthvað óviðjafnanlegt við það að vera hjómsveitarstjóri,“ sagði Cooper.

Byrjar allt með hugmynd

Maestro er önnur myndin sem Cooper leikstýrir. Í þeirri fyrstu, A Star is Born frá 2018, er tónlist einnig miðlæg, hreyfiafl í lífinu. Eins og þá leikur hann einnig sjálfur aðalhlutverkið núna og skrifar handritið ásamt Josh Singer. Í téðu samtali segir hann leikstjórann og leikarann ekki hafa flækst hvor fyrir öðrum. „Þetta er í mínum huga sami hluturinn, kvikmyndagerð. Allt byrjar þetta með hugmynd, þá skrifar maður handrit og síðan er eitthvað í mér til að vera persónan,“ segir Cooper.

Leonard Bernstein með tónsprotann.
Leonard Bernstein með tónsprotann. AFP/Janek Skarzynski


Hann kveðst hafa þurft að taka á honum stóra sínum til að stjórna heilli sinfóníuhljómsveit og það hafi verið miklu meiri ögrun en að syngja á Óskarnum. „Hljómsveitin hefur gert þetta allt sitt líf og ég sit þarna og leikstýri þeim, talandi eins og Leonard Bernstein. „Hvaða dúddi er þetta eiginlega?“ hugsa þau með sér. „Ætlar hann að stjórna okkur? Og vel að merkja, ég var með allt lóðbeint niðrum mig – fyrsta daginn,“ sagði hann við CBS.

Hér gefum við okkur að Cooperinn hafi skellt upp úr.

Tónlistarlegur hápunktur myndarinnar er þegar Bernstein stjórnar frægum flutningi Lundúnasinfóníunnar, hundrað manna kórs og tveggja einleikara á Upprisusinfóníu Mahlers í Ely-dómkirkjunni árið 1976. Í samtali við leikarann Lin Manuel Miranda á forsýningu Maestro í New York viðurkenndi Cooper að það hefði tekið hann sex ár að búa sig undir það atriði. „Ég var á nálum yfir því enda gerðum við þetta „live“. Ég stóð þarna fyrir framan Lundúnasinfóníuna og þurfti að stjórna henni – „live“. Það tók mig sex ár að læra að stjórna sex mínútum og 21 sekúndu af tónlist.“

Auk þess að stúdera upptökur af Bernstein sjálfum í Ely-dómkirkjunni naut Cooper leiðsagnar hljómsveitarstjórans Yannicks Nézet-Séguins sem hann segir að hafi verið betri en enginn.

Hljómsveitin tók víst líka Stanislavski-aðferðina á 'etta en liðsmenn voru beðnir að setja upp gamaldags gleraugu, skerða ekki hár sitt og láta sér vaxa kótilettur og annað skegg í dágóðan tíma á undan (einkum karlarnir), til að fanga anda ársins 1976 sem best.

Nánar er fjallað um Maestro í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar