Öll spjót beinast nú að spænsku konungsfjölskyldunni. Hinn 53 ára gamli Jamie Del Burgo hélt því nýlega fram að hann hefði átt í ástarsambandi við Letiziu drottningu Spánar. Del Burgo er fyrrverandi mágur Letiziu drottningar og þykir frásögn hans fjarstæðukennd.
Del Burgo heldur því fram að hann hafi átt í ástarsambandi við Letiziu áður en hann giftist systur Letiziu, Telmu Ortiz Rocasolano, að því fram kemur á vef Daily Mail.
Hann heldur því fram að hann hafi hitt Letiziu í kringum 2000 og hafi verið tilbúinn að biðja hennar þegar hún sagði honum að hún væri að hitta ónefndan diplómata. Letizia og Filippus Spánarkonungur gengu í hjónaband 2004 og eiga tvö börn.
Del Burgo gefur í skyn að ástarsamband þeirra hafi haldið áfram og þau hafi átt í rómantískum samskiptum eftir að hún gekk í hjónaband. Del Burgo deildi sjálfumynd af drottningunni óléttri á Twitter til þess að reyna að sanna sögu sína. Hélt hann því fram að drottningin hefði sent honum myndina og að hún hefði meðal annars sagt honum að hún elskaði hann í skilaboðum sem fylgdu myndinni. Del Burgo hefur eytt færslunni enda fékk hann töluverða gagnrýni fyrir myndina og textann sem fylgdi henni.