Dauðinn snýr aftur

​Rick Rozz hefur haft mikið yndi af veru sinni í …
​Rick Rozz hefur haft mikið yndi af veru sinni í Left to Die. ​Ljósmynd/Ivan Solano

Þegar Chuck Schuldiner laut í lægra haldi fyrir heilaæxli árið 2001, aðeins 34 ára, lagði hið goðsagnakennda dauðamálmband Death upp laupana enda hafði hann þar alla tíð tögl og hagldir. Að halda áfram hefði verið svolítið eins og að halda áfram með Metallica án James Hetfields, svo málið sé sett í samhengi. Schuldiner samdi til að mynda lungann úr öllu efni bandsins.

Það sætir því stórtíðindum að málmhausar – og eftir atvikum aðrir menn – geti nú, 22 árum síðar, mætt á tónleika og hlýtt á efni af plötunum sem, að flestra mati, lögðu grunninn að dauðamálminum sem stefnu, Scream Bloody Gore frá 1987 og Leprosy frá 1988. Það sem meira er, meðal flytjenda eru tveir menn sem komu við sögu á síðarnefndu plötunni, Rick Rozz gítarleikari og Terry Butler bassaleikari. Með þeim eru Matt Harvey gítarleikari og rymjari úr Exhumed og trymbillinn Gus Rios sem í eina tíð var í Malevolent Creation. Rozz samdi líka talsvert af efninu á Leprosy með Schuldiner.  

Kom að stofnun Death

Rozz gerði raunar gott betur, hann stofnaði Death ásamt Schuldiner og trymblinum og rymjaranum Kam Lee árið 1984 í Altamonte Springs í Flórída. Skrapp svo raunar aðeins frá og missti af frumburði bandsins, Scream Bloody Gore, en sneri aftur í tæka tíð fyrir Leprosy, áður en Schuldiner rak hann á dyr. Starfsmannavelta var alltaf mikil í Death. Eins dauði er annars brauð og allt það. Annars var Rozz lengst af í öðru nafnkunnu dauðamálmbandi, Massacre. Hætti þar í fjórða sinn 2019.

Ekki er leikið undir merkjum Death nú, bandið heyrir enn sögunni til og mun ábyggilega gera áfram. Þess í stað kalla menn sig Left to Die. Næsti bær við. 

Chuck Schuldiner var mörgum harmdauði.
Chuck Schuldiner var mörgum harmdauði.


Málmgagnið Blabbermouth.net náði í skottið á Rozz á dögunum og spurði hvernig tilfinning það væri að endurnýja kynnin við þetta efni, öllum þessum árum síðar. „Það var býsna ógnvekjandi til að byrja með, sérstaklega þegar ég áttaði mig á því að við ætluðum í alvöru tónleikaferð,“ sagði hann. „Kvíðinn sótti að mér áður en við lögðum af stað meðfram austurströndinni. Ég hugsaði með mér, hver röndóttur, ég þarf að læra fullt af lögum, líka af Scream Bloody Gore, og við ætlum að spila fyrir framan fólk. Úff, hugsaði ég með mér. Annars var ég bara góður. Og búinn að ná áttum núna.“​ 

Hefur verið blessun

Spurður hvort hann sé kominn hringinn á sínum ferli, aftur farinn að spila efnið sem kom honum á kortið, svaraði Rozz: „Þetta hefur verið blessun; ég er búinn að eignast nýja vini og hef endurnýjað vináttu mína við Terry. Við deilum herbergi [á túrnum]. Það er býsna svalt. Eins að kynnast Gus og Matt. Þeir eru svo góðir í sínu fagi og ástríðufullir gagnvart tónlistinni og lögunum. Það er frábær tilfinning. Og heiður. Svo sem enginn hringur að lokast, en þrælgaman.“ 

Þegar talið barst að því hvort áhugi á Death væri að aukast í seinni tíð, svaraði Rozz: „Klárt mál, sérstaklega þessum fyrstu plötum tveimur. Ekki svo að skilja að fólk hafi ekki áhuga á hinum plötunum en það virðist vera eitthvað alveg sérstakt með þessar tvær. Það er heiður. Það kitlar hégómagirndina. Það er blessun. Allt í senn. Þessir gaurar hefðu getað sagt: „Neibb, við erum góðir. Höfum í mörg horn að líta.“ Þeir þurftu alls ekki að læra öll þessi lög til að votta plötunum virðingu sína en gerðu það. Það er geggjað. Við höfum skemmt okkur konunglega.“

Rozz segir ekkert jafnast á við að vinna með mönnum sem eru öruggir í eigin skinni. Enginn sé á háa hestinum, eins og kúrekinn forðum, eða líði eins og að hann eigi eitthvað inni hjá öðrum. „Það er allra best, hver gerir sitt og öllum semur. Það er ekkert kjaftæði.“

Nánar er fjallað um Death og Left to Die í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar